Björn Kristjánsson tók saman
1. kafli: Fyrstu heimildir um tölt á Íslandi
2. kafli: Heimildir um tölt á 17. og 18. öld
3. kafli: Heimildir um tölt frá miðri 19. öld
4. kafli: Upphaf töltreiðar á 19. öld
5. kafli: Reiðtygi og tölt
6. kafli: Tölt lítt þekkt og umdeilt í fyrstu
7. kafli: Tölt fyrst skilgreint
8. kafli: Skilgreiningar á tölti
9. kafli: Fótaröðun og hreyfistig
10. kafli: Nýjar kenningar og rannsóknir
11. kafli: Breytingar í reiðmennsku og ásetu
12. kafli: Tölt og kynbótadómar
13. Kafli: Tölt og kynbótamat
14. kafli: Tölt og keppni
1. Fyrstu heimildir um tölt á Íslandi
Töltið hefur verið langvinsælasti gangur íslenska hestsins nú um árabil og þessi hæfileiki hefur verið undirstaða þeirra vinsælda sem hann hefur hlotið erlendis undanfarin ár. Í ljósi þessa er það næsta ótrúlegt hve saga tölts hér á landi nær skammt aftur í tímann. Það má glöggt sjá af myndum og textabrotum, að tölt var þekkt í Evrópu á miðöldum. Þetta má meðal annars sjá á hinum heimsfræga Bayeaux-refli (sem sýnir innrás Normanna í England árið 1066, en þar eru margir hestar greinilega á tölti). Töltið virðist týnast þar niður á 15du og 16du öld, og virðast margar ástæður liggja þar að baki, svo sem breyttar aðferðir í hernaði og breytingar á samgöngum og svo síðast en ekki síst voru breytingar á áherslum hvað snerti kenningar um reiðmennsku og reiðlist á tíma endurreisnar og barokks, þar sem megináhersla var lögð á klassískar fyrirmyndir, þar sem litið var á brokk sem upprunalegan gang. Afleiðingin varð sú að á undraskömmum tíma tókst að rækta „út“ tölt-hæfileikann í hinum evrópsku hestakynjum. Það er þó ljóst af skjölum að þegar töltið er horfið úr hinum stærri hestakynjum, voru íslenskir hestar nokkuð eftirsóttir við a.m.k. dönsku hirðina seint á 16. öld og í byrjun 17. aldar, einmitt vegna ganghæfileika sinna. Þegar Oddur talar þarna um skeið, þá er engu líkara en að hann eigi við það sem við myndum í dag skilgreina sem tölt, enda leggur hann áherslu á þýðan gang og að hestarnir séu lausir við allt hoss, sem hvorutveggja eru eiginleikar sem við tengjum miklu fremur í dag við tölt heldur en skeið. Þýðir hestar með yfirferð voru kallaðir skeiðhestar, en töltið var ekki skilgreint sérstaklega. |
Einn af upphafsstöfum Kálfalækjar-bókar, sem er handrit Njálssögu og talið vera frá því um 1300. (AM 133 fol) |
|
Útskurður á Valþjófsstaðahurðinni, sem talinn er merkastur íslenskra forngripa að handritunum undanskildum. Hurðin er talin vera frá 12 öld. Ekki verður betur séð en að hesturinn í efri hluta hringsins sé í tölthreyfingu og með ýktum fótaburði. |
Bayeaux-refillinn er eitt frægasta og merkasta listaverk frá miðöldum. Hann er meira en 70 metra langur, og á honum er rakinn aðdragandi að innrás Normanna í England og orustan við Hastings. Víða á reflinum má sjá hesta tölta og meðal annars vegna þess voru getgátur uppi um að þetta listaverk væri íslenskt að uppruna. Nú er þó talið fullvíst að Bayeaux-refillinn eigi uppruna sinn í Frakklandi |
Myndbrot úr Jónsbókarhandriti frá 16 öld. Myndin sýnir þrjá prúðbúna fyrirmenn á leið í brúðkaup. Sá sem fremstur er, er greinilega á tölti. (AM 345 fol.) |
2. Heimildir um tölt á 17. og 18. öld
Lítill treflastokkur loklaus; sennilega frá seinni hluta 17 aldar. Á einum gaflinum er maður sýndur á hestbaki, á beislinu er snoppuól. |
Páll Vídalín var einn merkasti maður sinnar samtíðar. Hann var fæddur árið 1668 og lést árið 1727. Hann var lengi vel lögmaður og eitt besta skáld sinnar samtíðar, en þekktastur er hann þó eflaust fyrir að vera annar af höfundum Jarðabókarinnar; hinn var Árni Magnússon. Jón Ólafsson úr Grunnavík (1707-1779) samdi ævisögu Páls og safnaði vísum hans. Í ævisögu Jóns var sérstakur kafli „Um hans lifandi gripi og nafngiftir á þeim, reiðlag og reiðhestar hans.“ Þar segir: „Á ferðalagi hafði hann vissan máta reiðlags. Vildi aldrei ríða dragseint eður fót fyrir fót, heldur hóftölt eður svo kastaði toppi; hafði smáa áfanga, og sté af baki og setti sig niður á milli eður lagði sig fyrir að sofna dúr. En á unga aldri hafði hann riðið von úr viti, svo froðan vall fram úr hestakjafti. Hann kunni annars vel að ríða til hesta.“
Mynd af prúðbúnu fólki á hestbaki frá fyrri hluta 19 aldar. Úr Íslandsleiðangri Paul Gaimards. Á seinni hluta 18 aldar og í byrjun 19 aldar, fóru erlendir ferðalangar og landkönnuðir að sækja til Íslands og skrifa í kjölfarið ferðasögur og fræðirit um land og þjóð. Þetta eru ómetanlegar heimildir um líf og landshætti hér á landi á þessum tíma. |
Orðið „tölt“ kemur ekki fyrir í öðrum heimildum frá 18 öld. Þannig er ekki minnst á tölt (né raunar aðrar gangtegundir) í þeim heimildum sem eru hvað ítarlegastar um hesta á Íslandi frá þessum tíma, þ.e. í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, og hins vegar í hinni annars stórmerkilegu grein Ólafs Stephenssen stiptamtmanns um hesta frá 1788. En önnur orð koma fyrir, sem seinna voru samheiti við orðið „tölt“, þannig eru orðin „apalgangur“ og „apalspor“ þekkt á þessum tíma, en þótti sú gangtegund sem þau voru notuð yfir heldur ófín. Það er því margt sem bendir til þess að þekking og kunnátta í sambandi við tölt hafi tapast niður. Hefur sennilega tvennt komið til. Annars vegar erlend áhrif, en þegar þarna var komið sögu var búið að rækta tölt og skeið úr evrópskum hestakynjum og því hefur töltreið væntanlega ekki þótt fín hjá fyrirfólki, sem lagaði sig að erlendum siðum. Svo má ekki gleyma því að þetta voru einhver mestu harðindaár í Íslandssögunni og fækkaði fólki og hrossum stórlega hér á landi á þessu tímabili. Það hefur eflaust haft áhrif á að þessi þekking týnist niður.
3. Heimildir um tölt frá miðri 19. öld
Konrad Maurer (1823-1902) var óumdeildur „jöfur norrænna fræða í Þýskalandi“ á sinni tíð. Um hann var sagt að „hollari vin í útlöndum hafi Ísland aldrei átt“, enda studdi hann þjóðfrelsisbaráttu Íslendinga af alefli. Konrad Maurer kom einungis einu sinni til Íslands, árið 1858) og skrifaði ítarlega og nákvæma ferðabók sem nýlega kom í leitirnar. Hann hafði dálæti á íslenska hestinum og flutti með sér hest til Þýskalands eftir Íslandsferðina. |
Það er greinilegt, þegar skoðaðar eru heimildir frá miðri 19 öld, að þá er orðið „tölt“ óþekkt sem nafn á gangtegund. Í ferðabók þýska fræðimannsins og Íslandsvinarins, Konrad Maurers, en hann ferðaðist hér á landi árið 1858, segir að íslenski hesturinn hafi fjórar gangtegundir, þ.e. þær þrjár sem hann þekkti frá hestakynjum í Evrópu á þeim tíma, og svo hefur íslenski hesturinn eina, „sem ekki er þekkt hjá okkur. Hesturinn lyftir þá fótunum eins og á teygðu brokki en þó þannig að afturfóturinn fer fram fyrir framfótinn. Fætur hestsins virðast þannig þvælast hver fyrir öðrum, en fyrir knapann er þetta afar þægilegt og maður kemst eins hratt yfir og á stökki. Þetta er kallað skeið og sögnin er að skeiða; hesturinn er nefndur skeiðhestur og sagður vakur eða góðgengur en hestur sem aðeins brokkar eða stekkur er sagður harðgengur, klárgengur. Ráðlagt skal að hafa hesta af báðum gerðum í lengri ferðir, því að tilbreytingin er hressandi. Skeiðhestar eru reyndar mun sjaldgæfari og þess vegna dýrari. Þetta er meðfæddur hæfileiki sem góður reiðmaður getur laðað fram. Kunnugir segja mér að það séu líklega innan við hundrað manns í öllu landinu sem kunni almennilega lagið á þessu.“
Það er athyglisvert að þegar Maurer talar um skeið, þá virðist hann vera að tala um tvo ólíka hluti; annars vegar þýðan og rúman gang sem sé þægilegur á ferðalögum, og hins vegar gangtegund, sem einungis örfáir menn hafi á valdi sínu og kunni að laða fram. Það er freistandi að álykta sem svo í fyrra tilfellinu sé hann að tala um gangtegund sem við í dag myndum kalla tölt, en í hinu tilfellinu sé hann að tala um gangtegund sem við myndum kalla skeið.
Jón Ásgeirsson frá Þingeyrum (1830-1910) varð þjóðsagnapersóna í lifanda lífi, vegna afburðafærni sinnar sem tamninga- og hestamaður. |
Ásgeir Jónsson frá Gottorp (1876-1963) var sonur Jóns Ásgeirssonar frá Þingeyrum. Hann bjó lengst af á býlinu Gottorp og er kenndur við þann stað. Hann var þjóðkunnur sem ræktunarmaður og sérstaklega fyrir sauðfjárstofn sinn sem var landskunnur. Þekktastur varð hann þó fyrir ritstörf sín, en eftir hann liggja bækurnar Horfnir góðhestar I og II, Samskipti manns og hests, og Forystufé. |
Áður en faðir minn kom í Húnavatnssýslu, var þar líkt ástatt og vestra, að töltið var þar óþekkt og mýktargangur í hestum nefndur ýmsum nöfnum. Þá var þó töluvert af reiðhestum og reiðmönnum í Húnavatnssýslu, en áherzlan mest lögð á yfirferðina á stökki og skeiði. En brátt fór svo, að húnvetnsku reiðmennirnir fóru að veita eftirtekt töltferðinni í reiðhestum föður míns, og fleiri íþróttir hans vöktu fljótlega á sér athygli. Flestir hestamenn aðhylltust og urðu hrifnir að nýja ganginum, töltinu. Aftur skárust aðrir úr leik, einkum þeir eldri og kváðu þetta apalspor eitt, strandaglópur þessi væri enginn reiðmaður.... En það eitt hef ég fyrir satt, sem merkir samtíðarmenn föður míns í Húnavatnssýslu sögðu mér og fleirum, að hann hefði fyrstur manna innleitt og ræktað töltið í sýslunni.
Hann var einnig kröfuharðari með, að góðir tölthestar hefðu hvíldargang, brokk og valhopp, til ígripa á misjöfnum vegi. Töltið notaði hann aldrei nema sem spari- og fegurðargang, þar sem honum líkaði vegurinn.“
Séra Jakob Benediktsson, prestur í Miklabæ, og síðar í Glaumbæ. Var talinn hafa fyrstur reiðmanna í Skagafirði vakið athygli á töltinu og nefndi fyrstur manna þessa gangtegund tölt. |
Á sama tíma virðist töltið spretta upp í Skagafirði. Þannig segir í Horfnum góðhestum: „Séra Jakob var af flestum samtímamönnum sínum talinn hafa fyrstur reiðmanna í Skagafirði vakið athygli á töltinu, enda kenndi hann það og ræktaði umfram aðra reiðmenn í Skagafirði yfir alllangt tímabil og nefndi fyrstur manna þessa eftirsóttu og yndislegu gangtegund tölt, og hefur þessi gangur haldið því nafni síðan. Þó hafa nokkrir elstu menn í Skagafirði haldið því fram, að fyrirrennarar hans, þeir séra Ásmundur (Gunnlaugsson í Mikley) og séra Ólafur (Þorvaldsson í Viðvík), hafi vel þekkt þennan gang og verið hrifnir af honum og nefnt hann „hýruspor“.
Töltið náði fljólega fótfestu í Skagafirði, og nafnkunnir hestamenn eins og Sigfús Pétursson í Eyhildarholti og „Hesta“-Bjarni Jóhannesson lögðu rækt við það.“
Mynd úr Íslandsleiðangri Tempest Anderson frá 1890. |
„Hesta”-Bjarni Jóhannesson frá Reykjum í Hjaltadal. Hann var einn kunnasti reiðmaður sinnar kynslóðar og frumherji á ýmsum sviðum tamninga og reiðmennsku hér á landi. |
Talsverður munur var á glæsilegum búnaði efnafólks og sauðsvarts almúgans. Fram yfir 1830 riðu margir eða flestir karlmenn í bryggjuhnökkum, en þeir tóku við af hábríkuðum standsöðlum. Hnakkarnir voru með samskonar trévirki og kven- og karlmannssöðlarnir en þeir voru minna skreyttir og mun léttari. Ístaðsólar voru festar mjög framarlega á virkið og reiðmaðurinn var vel skorðaður í hnakkann. |
Bryggjuhnakkur frá 18. öld með drifnu látúnsverki á bríkum. Hnakkkúlan var einkennistákn þessarar hnakk- eða söðulgetðar. Merkileg skreytilist. Þjms 1706. |
Þófi með hamól |
Á 19. öld breyttust reiðtygi mikið á Íslandi. Þá fóru hnakkar með nútímalagi að flytjast til landsins, svokallaðir enskir hnakkar. Bryggjan, eða bríkin, að framan hverfur, einnig látúns- eða koparnefið, og í staðinn kom hnakknef, þar sem hnakkurinn rís hæst að framan. Vaðmálsklæddir hnakkar og hnakksessur hurfu að mestu eða öllu leyti, en undirdekk héldust hjá mörgum reiðmönnum fram yfir aldamótin 1900.
Töltreið varð viðurkennd og farið að tala um tölt sem ákveðna gangtegund fljótlega eftir að hnakkar og kvensöðlar með nýju lagi, stoppaðir með fastri dýnu komu til sögunnar. Það getur ekki verið tilviljun. Hnakkurinn gaf betra samband við hestinn, samskonar og þófinn áður.
Hellusöðull (Sveifarsöðull) frá 18. öld. Síðuskinn, löf og seta klædd ullardúk - vaðmáli. Bríkur og sveif klædd drifnu látúnsverki, einnig reiðinn. Á reiðanum er svokallaður reiðaskjöldur á samskeytum. Beitur og skildir eru einnig úr látúni. Reiðinn einn var kýrverð. | Dæmigerður útbúnaður á seinni hluta 19. aldar. Þarna sést vel hin nýja hnakkgerð, og einnig eru notuð stangamél með nefól. Hnakkurinn er með föstum þófa (dýnu) og stoppaðri setu. Undirdekk er undir hnakknum til að hlífa reiðtygjum og reiðfatnaði. Taglið er hnýtt upp. |
Ekki voru allir sammála um gæði þessarar gangtegundar þegar hún kom fyrst fram og þannig segir G. H. Schrader í bók sinni Hestar og reiðmenn á Íslandi, sem kom út árið 1915: „Einu eðlilegu gangtegundir hesta eru fetið, brokkið og stökkið. Allt annað er tómur tilbúningur; eða stafar af veiklun hestsins, eða það er honum meðfætt. Töltið er í miklum metum á Íslandi þó ljótt sé, og má fá það fram með því að hvetja hestinn þannig, að elta til taumana og halda þétt í þá ... Töltið er ganglag sem hestar eru þvingaðir til með talsverðri harðneskju, kenna þeir þá mikið til í munninum og blóðgast oft, svo að hestar sem tölta hrista oft höfuðið og láta illa við mélunum. Því miður eru margir hestar vakrir, eða þá tölta og kjósa það margir heldur og er þó það ganglag ljótt og hæfir aðeins lélegum og kveifarlegum reiðmönnum.“
Daníel Daníelsson (1866-1937), ljósmyndari og síðar dyravörður í stjórnarráðinu. Hann var frumherji í samtökum hestamanna og formaður Hestamannafélagsins Fáks frá stofnun þess og til dánardægurs, eða um 15 ára skeið. Hann átti mikinn hlut að mótun samtaka áhugamanna um hestamennsku og hestaíþróttir. |
Theodór Arnbjörnsson frá Ósi - var Hrossaræktarráðunautur Búnaðarfélags Íslands frá 1920-1940. Hann var upphafsmaður að ættbók íslenska hestsins og eftir hann liggur bókin Hestar, sem gefin var út árið 1931 og er enn í dag eitt það besta sem hefur verið skrifað um íslenska hesta. |
Ásgeir Jónsson frá Gottorp |
Í bókinni Hestar eftir Daníel Daníelsson og Einar E. Sæmundssen, sem kom út árið 1925, er tekið fram að „það er tiltölulega skamt síðan, að almenningur þekti tölt, og óhætt að fullyrða, að margir séu enn, sem ekki þekkja það. Það er altítt, að margir sem bjóða hesta til sölu, fullyrða að þeir séu töltgengir, en þeir sem bera kennsl á þann gang, finna fljótt, að stundum er að eins um lullgengar truntur að ræða, sem hlotið hafa þetta veglega nafn, en bera það ekki með rentu. Því er síst að neita, að síðan er menn fóru að æfa hesta við tölt, hefir það verið misnotað hörmulega. Það virðist og liggja í meðvitund fjöldans, að þá sé að eins um reiðhest að ræða, ef hann er töltari. Þegar einhver ætlar að kaupa sér hest, er vana spurningin þessi: „Er hann töltari?“ - Það er aldrei spurt, hvernig hann tölti. Og það stendur sjaldnast á svarinu: „Jú, hann er töltari.“ Hestakaupmaðurinn skilur vel spurninguna, og hann er ekki svo skyni skroppinn, fremur en aðrir kaupmenn, að hann lasti vöru sína. Hann veit sem er, að „töltarinn hans“ er seljanlegri, heldur en „brokkarinn“ og jafnvel fremur en vekringurinn. Þess vegna er það, að reynt er að neyða tölt í hvaða hest sem er, þó misjafnlega takist. Og þess vegna fer svo stundum, að kaupandinn missir óðara töltið úr gæðingnum. Það var tilbúið, aðeins ytri gylling, sem hvarf um leið og viðvaningurinn settist í hnakkinn. Það getur því oft verið varhugavert, að kaupa suma hesta, þótt töltarar séu kallaðir, fyrir þá menn, sem ekki bera fullt skyn á slíka hluti.“
7. Tölt fyrst skilgreint
Gunnar Ólafsson (1859-1900), frá Keldudal. Ásgeir Jónsson frá Gottorp segir í bók sinni Horfnir góðhestar, að Gunnar hafi verið einn af bestu reiðmönnum í Skagafirði á sinni tíð. Um greinarnar um tamningar, segir Asgeir, að þær sýni, að Gunnar hafi haft óvenju þroskaðan skilning á tamningu og meðferð hesta. |
Einar E. Sæmundsen, skógarvörður og einn af helstu hvatamönnum að stofnun Hestamannafélagsins Fáks í Reykjavík, sem var fyrsta hestamannafélag á landinu. |
Í sama tölublaði og seinni greinin birtist, var önnur grein, „Ýmislegt um hesta“, eftir Finn Jónsson bónda á Kjörseyri. Þetta er fræðslugrein um hesta almennt. Þar er gerð grein fyrir gangtegundum hesta í stuttu máli, og þar segir um töltið: „Hesturinn ber fætuma á marga vegu. Hverju ganglagi má skipta í hægt og hratt. Hesturinn getur t. d. á seinagangi farið fót fyrir fót, eða hratt og er það nefnt ýmsum nöfnum, svo sem léttagangur, tölt, hýruspor, hraður klyfjagangur o.fl.“
Í bókinni Hestar eftir Daníel Daníelsson og Einar E. Sæmundsson, sem kom út árið 1925, er að finna eftirfarandi skilgreiningu á tölti:
„Stundum hefir og tölt verið nefnt hýruspor, og er það sannnefni, því að hýrlega gengur sá hestur, er ber sig vel á vaðandi tölti, og vekur fremur gleði í huga reiðmannsins en nokkuð annað.
Af því að mér er kunnugt um, að fæstir af þeim, sem tölthestum ríða, gera sér grein fyrir hvernig töltarinn hreyfir fæturna, þykir mér hlýða, að skýra það með nokkrum orðum.
Á tölti hreyfir hesturinn aðra hliðina í senn eins og á skeiði, en þó er gangurinn öðru vísi. Hesturinn brokkar með framfótum, en virðist skeiða með afturfótum, eða þannig hefir mér fundist það vera, þegar eg hefi setið á góðum og velriðnum töltara, og sýnst það sama þegar eg hefi séð þá tölta fallega undir öðrum. Tölt er því sambland af skeiði og brokki, enda tíðast að viljagóður eðlistöltari geti bæði brokkað og skeiðað.
En það er alls ekki vandalaust, að gera hesta að snillings tölturum. Vandinn liggur aðallega í því, að fá góða og fallega lyftingu í hestinn, og afturfæturna mátulega inn undir sig, eða með öðrum orðum, að fá hestinn í jafnvægi, samhliða því að bera sig vel. Þetta fæst með réttri ásetu tamningamannsins, lipru taumhaldi og lítið eitt með fótunum.“
Bogi Eggertsson (1906-1987) var einn kunnasti hestamaður á Íslandi á sinni tíð og mikill forkólfur í félagsstarfi hestamanna. Hér (sem og á skýringarmyndunum hér að neðan) situr hann gæðing sinn Stjarna frá Oddsstöðum, en þeir sigruðu í gæðingakeppni á landsmótunum 1954 og 1962.. |
Í bókinni Hestar skilgreinir Theodór Arnbjörnsson tölt svohljóðandi: „Þá er loks gangtegund, sem nefnd er ýmsum nöfnum (millispor, hýruspor, léttaspor, hundsspor), en oftast „tölt“, og verður því fylgt hér. Ætti að lýsa þessari gangtegund í fáum orðum, þá liggur beinast við að segja, að hún standi á milli fets og skeiðs eða brokks, og nefnist eftir því skeiðtölt eða brokktölt, en mjög er hún mismunandi að list, líkt og hættir eru misdýrir. - Á hreinu tölti eru 4 hófaskellir af heilu spori, og jafnlangt á milli þeirra allra, því gangurinn er „svif“-laus. Á brokktölti berast fæturnir í sömu röð og á feti: hægri framfótur, vinstri afturfótur, vinstri framfótur, hægri afturfótur, o. s. frv., en sá er munur á tölti og feti, að á tölti ganga afturfæturnir lengra inn undir hestinn en á feti, og hesturinn reisist meira að framan, svo að nokkuð af þunga framhlutans flyst yfir á afturfæturna og veldur auknu fjaðurmagni í ganginum. Ennfremur ber hesturinn svo ört á, að ýmist styður hann niður einum eða tveimur fótum, t. d. lyftist hægri framfótur áður en vinstri framfótur kemur niður, og á því augnabliki styður hesturinn aðeins á vinstri afturfót, o. s. frv. Hve langt hestur getur gengið í því, að styðja aðeins niður einum fæti í senn (hve mikið vantar á t.d. að vinstri framfótur komi niður, er hægri framfótur lyftist), er ekki rannsakað, og skal því ekkert fullyrt um það, en því lengra sem hesturinn gengur í þessa átt, því betri þykir gangurinn. - Skeiðtölt er að því frábrugðið brokktölti, að þá berast fæturnir í líkri röð og á skeiði (hægri framfótur, hægri afturfótur, vinstri framfótur, vinstri afturfótur), en sinn hófskellurinn af hverjum fæti, og jafnlangt á milli þeirra allra. Er það ekki eins „dýr háttur“ og brokktöltið, að því leyti, að lyfting hestsins að framan, og fjaðurmagn í baki og lærum, verður venjulega ekki eins mikil og á brokktölti. Einnig getur skeiðtölt nálgast skeiðið sjálft of mikið, sem þekkist meðal annars á því, að ekki verður jafnlangt milli allra hófaskellanna (styttra milli skella hliðstæðra fóta en skástæðra).
Þegar hestur töltir hratt og vel, er hann háreistur að framan, ber framfæturna hátt, en afturfæturnir ganga mjög undir hann. Er gangurinn því ákaflega fjaðurmagnaður og mjúkur, en reynir hestinn að sama skapi, einkum í baki og afturfótum. Er því sá maður ekki athugull á reiðhest sinn, sem lætur hann tölta langar lotur, jafnvel í sífellu allan daginn, þegar ferðast er.“
Í bókinni Á fáki eftir þá Gunnar Bjarnason og Boga Eggertsson, birtist eftirfarandi skilgreining á tölti og mismunandi tegundum þess:
Gunnar Bjarnason (1915-1995) var hrossaræktarráðunautur og síðar útflutningsráðunautur Búnaðarfélags Íslands. Hann er án nokkurs vafa einhver mesti frumkvöðull á sviði hrossaræktar og hestamennsku á Íslandi. Hann mótaði allt móta- og sýningahald á Íslandi, sem hefur haldist nær óbreytt síðan, og var jafnframt einn helst hvatamaður að stofnun Landssambands hestamannafélaga. Hann á og mestan heiður að kynningu og útbreiðslu íslenska reiðhestsins á erlendri grund. |
„Töltið er gangtegund, sem er mjög einkennandi fyrir íslenzka hestinn og íslenzka hestamennsku... Töltið er mörgum hestum eðlileg gangtegund og er greinilega háð arfgengri líkamsbyggingu. Til þess að geta orðið góður töltari þarf hesturinn að vera bæði bolliðugur og hafa fiman fótaburð. Áslendaðir hestar með stífum hrygg eru að jafnaði mjög tregir til tölts, enn fremur fást sjaldan góðir töltarar, sem eru mjög háir til hnésins og hafa stífa fætur.
Greina má töltið í þrennt eftir mismunandi fótahreyfingum: hreinatölt (fetgangstölt), brokktölt og skeiðtölt.
Hreinatöltið tekur hesturinn fram af fetganginum aðeins með því að auka hraðann og bera fæturna með sama hætti og á klyfjagangi. Eins og á fetganginum myndast hér fjórir hófaskellir með jöfnu millibili í hverri heilli hreyfingu. Hreinatöltið er sú gangtegund, sem flestir hestamenn sækja nú eftir.
Brokktöltið er frábrugðið hreinatöltinu að því leyti, að ekki verða jöfn millibil milli hófaskellanna, en hreyfing fótanna er þó eins og í sömu röð. Á brokktöltinu verður ögn styttra bil milli hófaskella hornstæðra fóta en hliðstæðra, og myndast á þennan hátt sérstæður taktur, sem auðvelt er að þekkja. Eftir því sem afturfótur kemur fyrr niður á eftir hornstæðum framfæti, nálgast gangurinn meira brokkið. Þegar hið gagnstæða skeður, nálgast hreyfingin meira hreinatöltið, en þó skiptir hesturinn yfirleitt það greinilega milli þessara tölttegunda, að reiðmaðurinn verður þess greinilega var.
Skeiðtöltið er langsjaldgæfasta tölttegundin og hefur nokkuð frábrugðinn fótaburð, og færast fæturnir í þessari röð: hægri framfótur - hægri afturfótur - vinstri framfótur - og vinstri afturfótur, og má svipað segja um þessa hreyfingu og brokktöltið, að því styttra sem verður milli hófaskella afturfótar og hliðstæðs framfótar, því meir nálgast hesturinn skeiðið, en eftir því sem gangurinn verður meira jafnspora, því hreinna og betra er töltið, en skiptingin milli skeiðtölts og hinna tölttegundanna er erfið, og verður þá oft hætta á óhreinu spori. Skeiðtöltarar eru venjulega vekringar, sem sjaldan hafa hinar tölttegundirnar.“
|
Í bók Walter Feldmanns og Andreu-Katharinu Rostock, Hesturinn og reiðmennskan er töltið skilgreint út frá fótaröðun og hreyfistigum: „Fótaröðun á tölti er sú sama og á feti, en tölt er hlaupin gangtegund en ekki stikandi eins og fetið. Fótaröðun er vinstri aftan, vinstri fram, hægri aftan, hægri fram. Hreyfistig: Við byrjum aftur á vinstri afturfæti, skýrleikans vegna - við gætum byrjað á hvaða fæti sem er - og hann stígur fyrstur niður. Eitt augnablik ber hesturinn allan þunga sinn á einum fæti. Þá bætist vinstri framfótur við. Þá hefur hesturinn stuðning á tveimur samsíða fótum. Áður en næsti fótur, hægri afturfóturinn, stígur niður, lyftir hesturinn vinstri afturfæti. Þá stendur hann aftur á einum fæti, vinstri framfæti. Þegar hægri afturfóturinn lendir hefur hesturinn stuðning á tveimur skástæðum fótum. Rétt eins og með afturfæturna þá lyftir hesturinn vinstri framfætinum áður en hann stígur í þann hægri. Þannig ber hesturinn allan þungan sinn aftur á einum fæti, nú hægri afturfæti. Og sama röð hreyfinga og lýst er að ofan fylgir hægra megin: Hesturinn stendur einum að aftan hægra megin í tvo hliðstæða hægra megin, einum hægra megin að framan, í skástæða fætur hægra megin að framan og vinstra megin að aftan og svo að nýju á einum fæti vinstra megin að aftan. Því þarf átta hreyfistig til að komast að nýju að upphafspunktinum.“
Svona lítur hreyfiferli tölts út með nokkurri einföldun.
1. Styður aftan vinstri | 2. Tvístuðningur samhliða | 3. Styður framan vinstri | 4. Tvístuðningur á ská |
5. Styður aftan hægri | 6. Tvístuðningur samhliða |
7. Styður framan hægri
|
8. Tvístuðningur á ská |
Ef við skoðum hreyfingar töltsins á reitariti, þá sjáum við að bilin milli þess að fæturnir snerta jörð eru alltaf jafn löng og að hesturinn stendur jafn lengi í tvo hliðstæða og tvo skástæða fætur, og því er um að ræða takthreint tölt (í reitaritinu hér tákna rauðu reitirnir þann tíma sem fóturinn nemur við jörð, en ólituðu reitirnir tákna þann tíma sem fóturinn er á lofti).
Á hægu tölti stendur hesturinn mjög stutt í einn fót (myndin hér að ofan er af hægu tölti og þar sést greinilega hversu stutt hesturinn stendur einungis í einn fót miðað við hversu lengi hann stendur í tvo fætur í einu; hreyfingarhringurinn er 24 reitir og þar af stendur hesturinn í tvo fætur í 16 reitum, en í einn fót í 8 reitum). Þegar hraði töltsins eykst, þá verða skrefin mun stærri og fæturnir eru mun lengur á lofti en á jörðinni. Þetta má greinilega sjá á reitariti fyrir greitt tölt:
Þarna er hreyfingarhringurinn 32 reitir. Hesturinn stendur í tvo fætur í 8 reitum, en í einn fót í 24 reitum.
Munurinn á afbrigðum töltsins er að fótaröðin sé alltaf sú sama. Munurinn á afbrigðum töltsins, þ.e. brokktölts og skeiðtölts, liggur í mismunandi bilum milli þess að hesturinn stígur í hvern fót fyrir sig, og þeim breytingum sem verða á lengd hreyfistiganna við það.
Hjá íslenska hestinum er litið svo á, öfugt við það sem þekkist hjá sumum öðrum hestakynjum, að eina eftirsóknarverða og rétta töltið sé hreint fjórskipt tölt, öll önnur afbrigði tölts þykja lítils virði. Því er litið á brokktölt og skeiðtölt sem galla að meira eða minna leyti, eftir því hve greinilegt það er.
10. Nýjar kenningar og rannsóknir
Fram til þessa hefur verið talið að það sé skilgreiningaratriði um tölt að ekki færri en einn fótur og ekki fleiri en tveir fætur nemi við jörðu í einu. En á allra síðustu árum hefur verið varpað fram kenningum um að þetta sé ekki með öllu rétt. Sérstaklega á þetta við um hægt tölt, en komið hefur í ljós að á mjög hægu tölti koma fyrir augnablik, þar sem hesturinn er með þrjá fætur á jörðinni í einu eitt augnablik. Þetta hefur verið kallað „tölt með þrístuðningi“. Það er vert að líta á hreyfiferil þessarar gerðar tölts og bera saman við hreyfiferil venjulegs tölts og hreyfiferil fets.
Hreyfiferli fets:
Þrístuðningur | Tvístuðningur samhliða | Þrístuðningur | Tvístuðningur á skálínu |
Þrístuðningur | Tvístuðningur samhliða | Þrístuðningur | Tvístuðningur á skálínu |
Hreyfiferli tölts
Styður aftan vinstri | Tvístuðningur samhliða | Styður framan vinstri | Tvístuðningur á ská |
Styður aftan hægri | Tvístuðningur samhliða | Styður framan hægri | Tvístuðningur á ská |
Hreyfiferli tölts með þrístuðningi
Styður aftan vinstri | Tvístuðningur samhliða | Þrístuðningur | Tvístuðningur á ská |
Styður aftan hægri | Tvístuðningur samhliða | Þrístuðningur | Tvístuðningur á ská |
Það er augljóst að tölt og fet eiga ýmislegt sameiginlegt, fótaröðunin er hin sama og 4 af 8 stigum í hreyfiferlinu eru hin sömu. Tölt með þrístuðningi virðist liggja þar mitt á milli, þar eð 6 af 8 stigum í hreyfiferlinu eru hin sömu og hjá fetinu og 6 af 8 stigum í hreyfiferlinu eru hin sömu og hjá töltinu. Það virðist þó eðlilegra að flokka það heldur með töltinu, enda kemur það ekki fyrir nema þegar tölt er riðið mjög hægt, og sá tími sem hesturinn er með alla þrjá fætur á jörðu í einu svo stuttur að augað fær það ekki numið.
Nokkuð ýtarlegar rannsóknir hafa verið gerðar á hreyfiferli tölts við Dýralæknaháskólann í Vínarborg, og voru háhraða-myndbandsupptökuvélar notaðar við að skrá hreyfiferilinn. Þessar rannsóknir virðast benda til þess að það sé enn meiri breytileiki í sambandi við fótaröðun og hreyfiferli tölts en áður hefur verið talið. Þannig virðist sem að þegar tölt er orðið mjög greitt, þá komi svifskeið fyrir (þ.e. Allir fætur eru á lofti í einu). Samkvæmt þessum rannsóknum hljóðar skilgreiningin á tölti svona: „Tölt er samhverf („symmetrísk“) fjórtöktuð gangtegund, þar sem skiptast á eins fótar- og tveggja fóta niðurgrip. Skástíg eða samsíða tveggja fóta niðurgrip eru til staðar. Svifskeið ætti að líða í töltinu, sérstaklega við mikinn hraða, svo lengi sem þau vara ekki yfir 10% af heildartíma skrefhringsins.“
11. Breytingar á reiðmennsku og ásetu
Það hafa orðið miklar breytingar á ýmsum þáttum sem varða reiðmennsku og ásetu á síðustu tveim öldum. Af myndum frá lokum 19. aldar og byrjun 20. aldar, má sjá að áseta reiðmanna hefur oft verið með ágætum, menn sitja réttir í hnakknum og fætur eru beint niður með síðum hestsins, líkt og er viðtekið í dag. Þegar töltið komst svo í tízku á fyrri hluta 20. aldar, varð það til þess að mjög margir reiðmenn riðu nær eingöngu á tölti og þurftu ekki gangskiptingar. Þá verður mjög algeng sérstök áseta, sem seinna hefur ranglega verið kölluð „gamla bændaásetan“. Einkennandi fyrir hana var að hún var afturhallandi, þ.e. menn hölluðu sér heldur aftur á bak og fætur reiðmannanna voru ekki niður með síðunum, heldur mjög framarlega. Í bókinni Á Fáki fjalla Gunnar Bjarnason og Bogi Eggertsson einmitt um þetta fyrirbæri: „Margir eru þeirrar skoðunar, að afturhallandi áseta hafi mikla þýðingu fyrir töltið. Þetta kann að geta átt sér stað stöku sinnum, en oftast mun réttara að sitja beinn, en færa sig aftur eða fram í hnakknum eftir því, sem menn finna, að jafnvægi hestsins krefst.
Svipað gildir um stöðu fótanna, þeir verða að flytjast um gjarðlínu hnakksins eftir því, sem manninum finnst það hafa áhrif á hreyfingar hestsins, en það er aldrei ástæða til að flytja fæturna mjög langt frá réttri stöðu. Ýmsum íslenzkum hestamönnum hættir við að hafa fæturna allt of framarlega á tölthestum. Slíkt er óvani og alveg sérstök óprýði.“
Þessi „gamla bændaáseta“ var ríkjandi fram undir 1970, en eftir það hvarf hún að mestu, enda urðu miklar framfarir í reiðmennsku á Íslandi á þeim tíma, m.a. vegna erlendra áhrifa sem streymdu inn í landið á áttunda áratug síðustu aldar. Heita má að hún sé horfin með öllu í dag.
Dæmigerð áseta um aldamótin 1900. Reiðmaðurinn situr beinn í hnakknum og fæturnir eru nokkurn veginn niður með síðum hestsins. | „Gamla bændaásetan“ - þarna er reiðmaðurinn nokkuð réttur í hnakknum, en fæturnir eru mjög framarlega | Kristján Samsonarson situr hér gæðing sinn Kolbak frá Bugðustöðum árið 1952. Hér sést greinilega þessi „gamla bændaáseta“ - reiðmaðurinn hallar sér aftur í hnakknum og fæturnir eru mjög framarlega.. |
Annað sem var einkennandi fyrir reiðlag á þessum árum (þ.e. frá fyrri hluta 20. aldar og fram yfir 1970) var að menn riðu gjarnan tölt með því að lyfta hestinum með taumunum að framan. Með því varð bakið fatt, höfuðburður nær því að vera láréttur og yfirlínan (háls og bak) stíf.
Þetta er mjög greinilega hægt að sjá af myndum af gæðingum þess tíma. Í dag er hins vegar lögð áhersla á fá yfirlínu mjúka og hvelfda og höfuðburðinn nær lóðréttu en láréttu. Það má sjá augljósan mun á þessu tvennu í myndunum hér að neðan:
Anton Páll Níelsson og Skuggi frá Víðinesi. Hér sjáum við greinilega þá yfirlínu og höfuðburð sem talin er eftirsóknarverðust í dag. Á útlínumyndinni sést greinilega hvernig bakið er hærra stillt og yfirlínan sterkari. | Jóhann Friðriksson og Gráni frá Auðsstöðum, sigurvegarar í B-flokki gæðinga á Landsmótinu 1970, en þá var í fyrsta sinn keppt í B-flokki á Landsmóti. Hér er hestinum lyft að framan og höfuðburður er nær því að vera láréttur en lóðréttur, bakið er fatt og yfirlína er stíf (sjá útlínumynd). |
Stjarni frá Svignaskarði og Reynir Aðalsteinsson. Stjarni er talinn tímamótahestur, vegna mikils fótaburðar og rýmis. Hann varð Evrópumeistari í tölti árið 1972, þá setinn af Bruno Poedlach. |
Á fyrsta landsmóti LH 1950 var dómnefndin skipuð þremur viðurkenndum reiðmönnum af eldri kynslóðinni. Í greinargerð fyrir dómnum var eftirfarandi um töltið: „Töltið leggjum við áherslu á að ekki sé misnotað sem hraðgangur. Við teljum ástæðu til við þetta tækifæri að átelja harðlega, að hestamannafélög skuli láta keppa á hraðtölti. Er þar freklega ýtt undir misnotkun þessarar sérkennilegu og stílfögru gangtegundar, sem aðeins nýtur sín til fulls sem hæg eða frekar hæg milliferð. Að vísu skal viðurkennt að einstaka hestur heldur fögrum stíl og fjaðrandi hreyfingum á allhröðu tölti, en oftast er um ómerkilega gangblöndu að ræða annað hvort af skeiði og tölti eða brokki og tölti.“
Á síðustu árum hefur áherzlan hins vegar verið mun meiri á mikinn fótaburð og rými, en á stundum minni áhersla hefur verið lögð á mýktina sem hvað mest var metin hér áður fyrr. Að margra mati hefur þessi ofuráhersla á ýktan fótaburð og fálmandi hreyfingar gengið út í öfgar en þetta mun allt leita jafnvægis og markmiðið er að sjálfsögðu að rækta og þjálfa hestinn þannig að hann búi bæði yfir mýkt og miklum hreyfingum.
Sveinn Guðmundsson á Sauðárkróki hefur verið í fremstu röð ræktunarmanna í Íslandi í hálfa öld. Hér sést hann á Landsmótinu 1954 með stóðhestinn Goða frá Sauðárkróki. |
Hekla frá Heiði og Þórður Þorgeirsson; fékk 10 fyrir tölt og 10 fyrir vilja og geðslag. |
Á landsmótinu 1950 var farið að dæma kynbótahross bæði fyrir byggingu og hæfileika, gefa einkunnir fyrir einstaka þætti og meðaltalseinkunn réð því hvort hross komust í ættbók, og réð einnig röðun og hvort hross komust í 1. verðlaun (yfir 8,00 að meðaltali). Þetta fyrirkomulag hefur haldist nánast óbreytt þótt hlutfallslegt vægi einstakra þátta hafi verið nokkuð mismunandi (sjá töflu hér að neðan)
Hlutfallslegt vægi í kynbótaeinkunn 1950-2003
1950-1960
|
1961-1978
|
1979-1985
|
1986-1989
|
1990-1999
|
2000-
|
|
Höfuð |
2,9%
|
6,7%
|
5,0%
|
5,0%
|
5,0%
|
3,0%
|
Háls,herðar |
2,9%
|
6,7%
|
7,5%
|
7,5%
|
10,0%
|
10,0%
|
Bak og lend |
2,9%
|
6,7%
|
7,5%
|
7,5%
|
7,5%
|
3,0%
|
Samræmi |
8,8%
|
10,0%
|
10,0%
|
10,0%
|
7,5%
|
7,5%
|
Fótagerð |
2,5%
|
6,7%
|
6,3%
|
6,3%
|
7,5%
|
6,0%
|
Réttleiki |
2,5%
|
6,7%
|
7,5%
|
7,5%
|
5,0%
|
3,0%
|
Hófar |
2,5%
|
6,7%
|
6,3%
|
6,3%
|
7,5%
|
6,0%
|
Tölt |
12,5%
|
8,3%
|
8,3%
|
14,3%
|
14,3%
|
15,0%
|
Brokk |
7,5%
|
6,7%
|
6,7%
|
5,7%
|
5,7%
|
7,5%
|
Skeið |
12,5%
|
8,3%
|
8,3%
|
7,1%
|
7,1%
|
9,0%
|
Stökk |
10,0%
|
5,0%
|
5,0%
|
4,3%
|
4,3%
|
4,5%
|
Vilji |
17,5%
|
10,0%
|
10,0%
|
8,6%
|
8,6%
|
12,5%
|
Geðslag |
10,0%
|
6,7%
|
6,7%
|
5,7%
|
4,3%
|
1,5%
|
Fegurð í rei |
0,0%
|
5,0%
|
5,0%
|
4,3%
|
5,7%
|
10,0%
|
Fet |
5,0%
|
0,0%
|
0,0%
|
0,0%
|
0,0%
|
1,5%
|
Samtals væ |
100,0%
|
100,0%
|
100,0%
|
100,0%
|
100,0%
|
100,0%
|
Sleipnisbikarinn er veittur þeim stóðhesti sem stendur efstur í flokki þeirra hesta sem hljóta heiðursverðlaun fyrir afkvæmi á hverju landsmóti. Hér sést Indriði Ólafsson á Þúfu hampa bikarnum, en hann fékk hann á Landsmótinu 2000 fyrir Orra frá Þúfu, og aftur árið 2002 fyrir Þorra frá Þúfu. |
Rauðhetta frá Kirkjubæ og Þórður Þorgeirsson; fyrsta hrossið sem fékk 10 fyrir tölt í kynbótadómi. |
9,5 – 10:
a) Taktgott tölt með góðu afturfótastigi, glæstri lyftu og framgripi framfóta, mikið fjaðurmagn er í hreyfingum, töltferðin frábær.
9,0:
a) Taktgott tölt með góðu afturfótastigi, góðri lyftu og framgripi framfóta, fjaðurmagn er í hreyfingum, mjög ferðmikið; b) taktgott tölt með góðu afturfótastigi, glæstri lyftu og framgripi framfóta, mikið fjaðurmagn er í hreyfingum, dágóð ferð.
8,5:
a) Taktgott tölt með góðu afturfótastigi, meðalgóðri lyftu og framgripi framfóta en töltferðin er mjög góð; b) taktgott tölt með góðu afturfótastigi, góðri lyftu og framgripi framfóta en aðeins þokkalegri töltferð; c) rúmt, afar lyftingar- og framtaksmikið tölt en skortir nokkuð á gott taktöryggi; d) hrossið nær ekki góðu afturfótarstigi en hreyfingar framfóta eru afar lyftingar- og framgripsmiklar, bærilegur taktur á hægu tölti, mjög ferðmikið; e) hámarkseinkunn ef eingöngu er sýnt hægt tölt
8,0:
a) taktgott tölt með góðu afturfótastigi, lyfta og framgrip framfóta er ekki undir meðallagi, allgóð ferð; b) taktgott tölt með góðu afturfótastigi, góðri lyftu og framgripi framfóta en töltferð er í meðallagi; c) rúmt lyftingargott, framtaksmikið tölt en um nokkra taktgalla er að ræða þegar komið er á ferð; d) fremur stutt afturfótastig en lyfta og framgrip framfóta er mikið, hreinir taktgallar eru ekki til staðar, hrossið nær góðri töltferð; e) hámarkseinkunn ef ekki er sýnt hægt tölt.
7,5:
a) taktgott tölt en nokkuð skortir á rými þess og glæsileik; b) taktgott tölt, rúmt en reisnarlítið (lágengni); c) rúmt, lyftingar- og framgripsmikið tölt en um talsverða taktgalla er að ræða á hægu- og milliferðartölti; d) tölt með stuttu afturfótastigi en lyfta og framgrip fóta er mikið og allgóð ferð næst.
7,0:
a) þokkalegt tölt með köflum en ójafnt; b) rýmislítið tölt eða mjög stutt afturfótastig; c) brokkívaf en þokkaleg ferð; d) bindingur þó að nokkur ferð og lyfta náist; e) hopp upp á fótinn á venjulegri töltferð; e) takthreint tölt, milliferð næst en gangurinn er afskaplega lítilfjörlegur (mikil lággengni, stuttstigni).
6,5 og lægra:
a) töltir ekki (5,0); b) mjög tregt tölt (klárgengni); c) mjög bundið tölt (skeiðbindingur); d) afar ferðlítið tölt; e) mjög víxlað tölt; f) tipl eða mikið hopp upp á fótinn.
Sörli 71 frá Svaðastöðum - ættfaðir Svaðastaðakynsins, sem er ein útbreiddasta ættkvísl íslenska hrossakynsins. Á landsmótinu 2002 á Vindheimamelum, var hægt að rekja ættir allra kynbótahrossa sem komu fram á mótinu, með einum eða öðrum hætti til Sörla, sem sýnir glöggt hversu mikill ættfaðir hann var |
Sörli 653 frá Sauðárkróki - einn áhrifamesti stóðhestur á seinni hluta 20 aldarinnar. Undan honum eru m.a. hin kunnu tölthross Hlynur frá Bringu og Tinna frá Flúðum. |
Það er hverjum manni augljóst, sem skoðar myndir frá eldri hestamannamótum, og ber þær saman við myndir frá mótum dagsins í dag, að það hafa orðið gríðarlegar breytingar og framfarir. Hrossin eru orðin bæði glæsilegri og getumeiri. Hluti þessara framfara er án efa til kominn vegna umhverfisþátta s.s. betra uppeldis, fóðrunar og reiðmennsku. Jafnfram er ljóst að öflugt kynbótastarf um áratugskeið hefur skilað miklum árangri. Með aðferðum kynbótafræðinnar er unnt að skilja að áhrif þessara tveggja þátta, erfða og umhverfis, og meta hverjar erfðaframfarir í hestakyninu eru á hverjum tíma.
Í íslenskri hrossarækt hefur um árabil verið reiknuð út kynbótaeinkunn fyrir hvert hross þar sem byggt er á dómum um gripinn sjálfan og á öllum skyldum hrossum. Við útreikningana er notuð sérstök tölfræðiaðferð (BLUP - Best Linear Unbiased Prediction) sem gerir það möglegt að meta samtímis erfða- og umhverfisþætti. Þannig má hreinsa burt umhverfisþættina einn af öðrum úr svipfari gripanna, svo sem dómsaldur, dómsár o.s.frv., þangað til ekkert stendur eftir nema erfðaþátturinn eða m.ö.o. kynbótagildið.
Sérhvert hross fær kynbótaeinkunn fyrir sérhvern eiginleika bæði í byggingu og hæfileikum. Kynbótaeinkunnirnar skýra frá erfðalegum gæðum einstaklinganna og liggja þær á bilinu ca. 70-130 þar sem meðaltalið er 100 og staðalfrávik er 10. Í því felst að 67% allra hrossa eru með kynbótamat á bilinu 90 stig til 110 stig í hverjum eiginleika fyrir sig, 95% hrossanna eru með kynbótamat á bilinu 80 til 120 stig og 99% hrossanna eru með kynbótamat á bilinu 70 til 130 stig.
Þannig má til dæmis auðveldlega bera saman kynbótaeinkunnir fyrir hross sem dæmd eru á mismunandi tímum og með því móti má gera sér grein fyrir því hvort framfarir hafa orðið, og þá hversu miklar, fyrir hina ýmsu aðskiljanlegu eiginleika. Í þessu ljósi er fróðlegt að skoða hvernig helstu ættarhöfðingjar sögu hrossaræktarinnar á Íslandi standa, og eins hvaða stóðhestar sem einhver reynsla er komin á (þ.e. með yfir 20 dæmd afkvæmi) standa í kynbótaeinkunnum fyrir tölt og eins í aðaleinkunn.
Gæðingakeppni - Íþróttakeppni
Gulltoppur frá Eystra-Geldingaholti, sigurvegari í fyrstu gæðingakeppninni sem haldin var hér á landi árið 1944. |
Munurinn á gæðingakeppni og íþróttakeppni veldur oft ruglingi, en í stuttu máli má segja að í gæðingakeppni eigi kostir gæðingsins að ráða öllu um einkunn, en í íþróttakeppni sé það samspil manns og hests sem eigi að ráða úrslitum. Vissulega er þetta svo samtvinnað, að erfitt er að gera greinarmun. Fyrsta gæðingakeppnin sem vitað er um var háð í Gnúpverjahreppi 1944. Eftir að Landssamband hestamannafélaga var stofnað árið 1949, fær keppnishald á sig fastara form. Á fyrstu Landsmótunum og Fjórðungsmótunum voru gæðingakeppnir, þar sem hestunum var gefin umsögn og raðað eftir henni, en á Landsmótinu 1958 eru gæðingar dæmdir eftir sama dómskala og kynbótahross. Þannig voru þeir byggingadæmdir allt fram til ársins 1972.
Árið 1967 var byrjað að skipta gæðingakeppninni í tvo flokka, A- og B-flokk á fjórðungsmóti á Rangárbökkum og Landsmótið á Þingvöllum 1970 var það fyrsta með klárhestaflokk. Árið 1972 urðu miklar breytingar, hætt var að dæma byggingu gæðinga og spjaldadómar voru teknir upp. Hefur þetta fyrirkomulag gæðingakeppna haldist síðan að miklu leyti óbreytt.
Íþróttakeppnir eiga sér styttri sögu. Það má segja að með fyrsta Evrópumótinu í Aegidienberg hafi saga þeirra hafist. Árið 1971 var fyrsta hestaíþróttamótið á Íslandi haldið á Hvítárbakka, þar sem keppnisfyrirkomulagið var svipað og á Evrópumótinu. Helstu keppnisgreinarnar voru fjórgangur, fimmgangur og tölt. Upphaflega voru hlýðni og nákvæmniskröfur miklar, en smám saman breyttist það og geta og ganghæfni fór að hafa meira að segja. Árið 1978 var í fyrsta skipti sérstök töltkeppni á Landsmóti, og síðan þá hefur sú keppni verið einn af hápunktum hvers Landsmóts.
Íslandsmót í hestaíþróttum voru fyrst haldin hér á landi á Selfossi árið 1979 og hefur verið haldið árlega síðan.
|
|
|
Blær frá Langholtskoti. Sigurvegari í gæðingakeppni Landsmótsins 1966 og í A-flokki gæðinga á Landsmótinu 1970. | Eyjólfur Ísólfsson tekur við töltbikarnum á Landsmótinu 1978, en þá var í fyrsta sinn keppt í tölti á Landsmóti. Hann er jafnframt eini maðurinn sem hefur tvisvar unnið töltkeppni á Landsmóti. | Jóhann Skúlason hampar tölthorninu eftir sigur í tölti á Heimsmeistaramótinu 1999. Tölthornið er almennt talinn eftirsóttasti verðlaunagripur í heimi hestaíþrótta. Jóhann hefur tvisvar sigrað í tölti á Heimsmeistaramóti, fyrst árið 1999 á Feng frá Íbishóli og síðan árið 2003 á Snarpi frá Kjartansstöðum. |
Christiane Matthiesen og Gammur frá Hofsstöðum |
Sigurður Sigurðarsson og Kringla frá Kringlumýri |
Hans Kjerúlf og Laufi frá Kollaleiru |
Sigurbjörn Bárðarsson og Oddur frá Blönduósi |
Jolly Schrenk og Ófeigur |
Landsmót:
1978 - Eyjólfur Ísólfsson og Hlynur frá Bringu
1986 - Olil Amble og Snjall frá Gerðum
1990 - Rúna Einarsdóttir og Dimma frá Gunnarsholti
1994 - Sigurbjörn Bárðarsson og Oddur frá Blönduósi
1998 - Sigurður Sigurðarsson og Kringla frá Kringlumýri
2000 - Hans Kjerúlf og Laufi frá Kollaleiru
2002 - Eyjólfur Ísólfsson og Rás frá Ragnheiðarstöðum
2004 - Björn Jónsson og Lydía frá Vatnsleysu
2006 - Sigurbjörn Bárðarson og Grunur frá Oddhóli (8,67)
Íslandsmót í hestaíþróttum:
1978 - Sigfús Guðmundsson og Þytur frá Vestra-Geldingaholti
1979 - Sigurbjörn Bárðarsson og Brjánn frá Sleitustöðum
1980 - Albert Jónsson og Fálki frá Höskuldsstöðum
1981 - Björn Sveinsson og Hrímnir frá Hrafnagili
1982 - Olil Amble og Fleygur frá Kirkjubæ
1983 - Þórður Þorgeirsson og Snjall frá Gerðum
1984 - Einar Öder Magnússon og Tinna frá Flúðum
1985 - Orri Snorrason og Kórall frá Sandlæk
1986 - Olil Amble og Snjall frá Gerðum
1987 - Sigurbjörn Bárðarsson og Brjánn frá Hólum
1988 - Sævar Haraldsson og Kjarni frá Egilsstöðum
1989 - Rúna Einarsdóttir og Dimma frá Gunnarsholti
1990 - Unn Kroghen og Kraki frá Helgastöðum
1991 - Hinrik Bragason og Pjakkur frá Torfunesi
1992 - Sigurbjörn Bárðarsson og Oddur frá Blönduósi
1993 - Sigurbjörn Bárðarsson og Oddur frá Blönduósi
1994 - Hafliði Halldórsson og Næla frá Bakkakoti
1995 - Sveinn Jónsson og Tenór frá Torfunesi
1996 - Þórður Þorgeirsson og Laufi frá Kollaleiru
1997 - Sigurður Sigurðarsson og Kringla frá Kringlumýri
1998 - Hans Kjerúlf og Laufi frá Kollaleiru
1999 - Egill Þórarinsson og Blæja frá Hólum
2000 - Sveinn Ragnarsson og Hringur frá Húsey
2001 - Hafliði Halldórsson og Valíant frá Heggstöðum
2002 - Eyjólfur Ísólfsson og Rás frá Ragnheiðarstöðum
2003 - Haukur Tryggvason og Dáð frá Halldórsstöðum
2004 - Björn Jónsson og Lydía frá Vatnsleysu
2005 - Viðar Ingólfsson
2006 - Þórarinn Eymundsson og Kraftur frá Bringu
2007 - Þórarinn Eymundsson og Kraftur frá Bringu
Evrópu og heimsmeistaramót:
1970 - Walter Feldman jr og Funi, Þýskaland
1972 - Bruno Poedlach og Stjarni frá Svignaskarði, Þýskaland
1975 - Reynir Aðalsteinsson og Dagur frá Núpum, Ísland
1977 - Bernd Vith og Fagri-Blakkur frá Hvítárbakka, Þýskaland
1979 - Christiane Matthiesen og Gammur frá Hofsstöðum, Þýskaland
1981 - Christiane Matthiesen og Gammur frá Hofsstöðum, Þýskaland
1983 - Hans Georg Gundlach og Skolli, Þýskaland
1985 - Wolfgang Berg og Funi, Þýskaland
1987 - Sigurbjörn Bárðarsson og Brjánn frá Hólum, Ísland
1989 - Bernt Vith og Röður frá Ellenbach, Þýskaland
1991 - Andreas Trappe og Týr frá Rappenhof, Þýskaland
1993 - Jolly Schrenk og Ófeigur, Þýskaland
1995 - Jolly Schrenk og Ófeigur, Þýskaland
1997 - Vignir Siggeirsson og Þyrill frá Vatnsleysu, Ísland
1999 - Jóhann Skúlason og Fengur frá Íbishóli, Ísland
2001 - Hafliði Halldórsson og Valíant frá Heggsstöðum, Ísland
2003 - Jóhann Skúlason og Snarpur frá Kjartansstöðum
2005 - Jóhann R. Skúlason og Hvinur frá Holtsmúla
2007 - Stian Pedersen og Jarl frá Miðkrika