Sigríður Sigurðardóttir, fyrrum safnstjóri Byggðasafns Skagfirðinga skrifaði kafla um gömul reiðver í Hlutaveltu tímans sem Þjóðminjasafn Íslands gaf út árið 2004 og í yfirlitsbókina Íslenska hestinn sem gefin var út sama ár. Hún hefur tekið saman stuttan kafla um efni og þróun gömlu reiðveranna:
Gömul reiðver
Íslenski hesturinn hefur verið landsmönnum þolgóður þjónn, vinur og förunautur í aldanna rás. Hann var aðal flutnings"tækið" fyrr á öldum, þar til vélar tóku við því hlutverki um miðja 20. öld. Vísbendingar um þessi þrautseigu burðardýr eru mörkuð í fjöll og heiðar þar sem enn sjást gamlar götur milli landshluta, en flest merki um samgöngur fyrr á tímum eru horfin úr byggð.
Hér er fjallað stuttlega um: skeifur, beisli, reiðþófa og reiðskinn, söðla og hnakkar, öryggis-, þæginda- og skrautbúnað, klyfbera og önnur reiðver og aktygi.
Umbúnaður á hesta var mismunandi eftir því hvort átti að nota þá til flutnings eða reiðar. Nú er talað um reiðtygi og aktygi eftir því hvernig á að nota hestinn, en eldri nöfn, eins og reiðver og áreiði voru fyrrum notuð yfir það sama. Hesturinn var yfirleitt járnaður fyrir notkun eins og nú, og beislaður, en svo var misjafnt hvað lagt var á, hvort það var þófi, söðull eða hnakkur ef átti að ríða af bæ eða smala. Hins vegar ef átti að nota hest undir klyfjar var lagður á hann reiðingur, klyfberi og önnur virki sem tilheyrðu hinum svokallaða klyfjareiðskap. Aktygi voru lögð á dráttarklárinn.
Reiðver og klyfjareiðskapur voru unnin af ýmsum hagleiksmönnum og smiðum, þar til söðlasmíði varð sérstök iðngrein um miðja 19. öld. Reiðtygi nútímans eru mun þægilegri en áður var, bæði fyrir hest og reiðmann.Venjulega voru svokallaðir brúkshestar járnaðir á öllum fótum. Norðanlands eru sagnir um að fram undir aldamótin 1900 hafi tíðkast að tylla skeifum undir framfætur klyfjahesta. Ef farið var á fjallvegi voru þeir aljárnaðir, eins og reiðhestarnir, a.m.k. síðustu aldirnar.
Skeifur eða hestajárn, eins og fyrrum var sagt, voru tekin í notkun í norðanverðri Evrópu á 11. öld að talið er. Áður þekktust svokallaðir ísbroddar eða íshögg. Það voru járngaddar, sem reknir voru upp í gegn um hófinn og endinn beygður niður (Þjms.14771). Þetta var árangursrík aðferð til að verjast slysum á ferð um ísilagða slóð. Svokölluðum tvískeflingum, með tveimur naglagötum, var tyllt undir hestinn í sama tilgangi.
Talað er um „skúaða” hesta í Heiðarvígasögu, sem rituð er um 1200. Það er ein elsta heimild um járnaða hesta á Íslandi. Í Sturlunga sögu sem fjallar um atburði á 13. öld er talað um að þá hafi menn járnað langferðahesta. Leiða má líkur að því að Íslendingar hafi orðið að járna hesta sína ef þeir ætluðu að nota þá til langferða því hófar spænast hratt upp á grýttu landi. Vöntun á hestjárnum gat því verið afdrifarík fyrir flutninga til og frá kaupstað sem og ferðalög milli byggða. Hér stunduðu menn rauðablástur til járngerðar frá fyrstu tíð og menn smíðuðu sjálfir skeifur til heimilisnota. Margir höfðu smiðju og endurunnu hestajárn sem önnur til heimilsnota því járn var dýrmætt. Vörulýsingar sýna að menn keyptu einnig skeifur af útlendingum, til dæmis af Englendingum sem sigldu til Íslands á 15. og 16. öld. Árið 1548 voru til skafla skeifur undir tíu hesta og flatskeifur undir tólf á Skálholtsstað en ekkert er um það sagt hvort járnin voru innflutt eða heimaunnin.
„Ekki smíðast hestskónagli í einu höggi“ segir gamalt máltæki og vísar til þess að skeifa var negld á hóf með hestskónöglum, sem slegnir voru til í löð eins og fjaðrirnar, sem tóku við af þeim. Á skeifur voru soðnir skaflar, eða járnað með broddnöglum fyrir vetrarreið. Gamlar skeifur sem hafa fundist eru líkar þeim sem nú eru notaðar. Þær voru þó lítið eitt breiðari og á þeim voru mismörg göt og oft fram á tá.
Beisli
Beisli voru með höfuðleðri úr þykku leðri eins og nafnið bendir til. Einnig voru til „höfuðleður” brugðin eða fléttuð úr hrosshári eða ull, en þau voru fremur notuð við taumbeisli á áburðarhesta en reiðhesta. Yfirleitt voru höfuðleður sett saman af ennisól, kverkól, kinnólum, mélum og taumum og tengd með hringjum og sviftum.
Beisli með hringamélum voru og eru kölluð hringabeisli, en stanga- eða kjálkabeisli, sem voru með stangamélum. Svokölluð bandbeisli eða taumbeisli voru með hringamélum.
![]() 1 ennislauf á ennisól |
Mélið, bitullinn, var yfirleitt úr málmi, samsett úr tveimur stykkjum sem léku á liðamótum yfir tungu hestsins. Einnig voru til einjárnungar og þrískipt mél, en þau voru fátíðari. Annaðhvort voru mélin með hringum, svokölluð hringamél eða með stöngum, stangamél. Hvor tveggja gerðin var notuð fyrir reiðbeisli, en taumbeisli áburðar- og dráttarklára voru alltaf með hringamélum. Þau voru einnig kölluð bandbeisli. Beisli með hringhögldum úr horni í stað járnhringja voru til en ekki algeng. Mél úr horni voru einnig til. Árið 1504 voru tíunduð þrjú hornbeisli á Breiðabólstað í Fljótshlíð. Ekki er ljóst hvers konar búnaður það var, mél og hringar, eða jafnvel hornstangir. Algengt var að smeygja snæri upp í hross er þau voru sótt í haga og jafnvel var skotist á bak og spottinn notaður í beislisstað ef hesturinn var þægur og stutt að fara.
Að því er séð verður af fornleifum voru hringamél yfirleitt notuð sem almennur reiðbeislisbúnaðurá Íslandi fram á 15. öld . Þá voru stangabeisli eða reiðstangir, fyrir löngu orðin þekkt í Evrópu. Hugsanlega er elsta varðveitta stangabeislið á landinu í Þjóðminjasafni Íslands. Það er ísfirskt og er frá 1607, en elsta ritaða heimild um slíkt beisli hérlendis er frá 16. öld. Stengur voru annars yfirleitt smíðaðar úr járni, tini, nýsilfri og kopar. Til eru nöfn eins og kjálkabeisli og beisliskjálkar vísa til lögunarinnar fremur en að beinkjálkar hafi verið notaðir, en stengur úr horni voru til og eru varðveittar. Á 19. öld þóttu stangabeisli svo sjálfsögð reiðbeisli að sumir töldu ófært að ríða hesti við hringamél. Íslenskar beislisstengur voru heldur lengri en útlendar og keðjan alltaf höfð fremur spennt. Þær voru einskonar blendingar af hringum og útlendum stöngum.
Beislistaumar voru með ýmsu móti. Stungnir, stímaðir, fléttaðir eða brugðnir taumar úr nautshúð þóttu afbragð. Merkilegustu taumarnir voru hnýttir saman með sérstökum hnút, svokölluðum starkóngi. Einnig þekktust taumar úr mjúkri ull eða fínlegri járnkeðju með ól í miðju. Einnig fléttaðir, stímaðir eða brugðnir taumar úr hrosshári eða hampspotta, en þannig taumar voru fremur notaðir á taumbeisli.
Áreiði
Algengasta áreiði almennings frá landnámi til iðnvæddra söðlasmíða á 19. öld var reiðþófi. Nafnið er dregið af dýnu úr ullarþæfu sem ýmist var notuð ein og sér eða lögð var undir söðulinn, eins og hnakkdýna nútímans. Dýnur úr melrótum voru notaðar sunnanlands í sama tilgangi. Reiðþófinn var mjúkur og fór vel með hest og reiðmann ef hann var vel gerður.
![]() |
Reiðþófi |
![]() |
Reiðskinn var oft lagt ofan á harða hnakka til að mýkja sætið. Reiðskinn var einnig notað eitt og sér í stað reiðþófa. Til er sögn frá 19. öld um það að gamall vel þekktur reiðmaður hafi farið að nota reiðskinn til að mýkja hnakkinn sinn og aðrir svo tekið það upp eftir honum. Sennilega er þessi siður þó mun eldri. |
Þegar konur riðu á þófa sátu þær yfirleitt karlveg eins og það var nefnt er þær sátu klofvega á hestbaki. Þær höfðu stutt í ístöðunum þannig að þær krepptu hnén uppundir þófabrún og féllu pilsin yfir. Í Skaftafellssýslum riðu konur á melþófa fram á 19. öld. Yfirleitt voru þeir klæddir vaðmáli eða boldangi, sem er þéttofið léreft eða segldúkur.
Stundum var svonefndum smalaístöðum hent yfir þófa, fyrir börn og unglinga. Smalaístöð voru þunnar tré-, bein-, eða hornplötur með götum á hornum sem í var fest snæri og þau bundin á ól eða spotta. Smalaístöð voru einnig notuð við reiðskinn (gæruskinn) sem var einfaldast allra reiðtygja. Hægt var að girða reiðskinn á með hamól eins og þófann. Algengt var einnig að nota reiðskinn ofan á harða hnakka til að mýkja sætið. Enn einfaldari ístöð voru til. Það var bandlykkja, sem smeygt var yfir þófann eða reiðskinnið og tærnar látnar hvíla í lykkjuendunum.
Talsverður munur var á glæsilegum búnaði efnafólks og almúga, sem henti reiðskinni eða þófa á bak reiðskjótanum ef menn létu sér ekki lynda tvo jafnfljóta. Þegar söðull eða hnakkur var lagður á hest var þófinn lagður fyrst á og söðullinn ofan á hann og girtur á með einni eða tveimur gjörðum. Aftari söðulgjörðin var kölluð kviðstag. Gjarðir voru yfirleitt úr hrosshári eða ull, ofnar eða brugðnar og hétu eftir útlitinu, tenntar, tíglóttar eða oddabrugðnar. Leðurgjarðir voru fátíðari. Gjarðahringjur voru steyptar úr kopar og oft skrautlegar. Þær voru einnig til úr öðrum málmum og jafnvel horni.
![]() |
![]() |
Standsöðull frá 17. öld. |
Sveifarsöðull frá 18. öld. |
Leifar söðla sem lagðir voru í kuml með heiðnum mönnum benda ekki til mikils íburðar. Fátt hefur fundist annað en gjarðakengir, bólur og ísbroddar. Myndverk listamanna frá miðöldum sýna hins vegar skreytta söðla sem líta út eins og djúpir stólar og voru sennilega kallaðir standsöðlar, sem var ríkjandi söðulgerð á Íslandi fram yfir 1600. Einkenni þeirra voru háar bríkur í bak og fyrir. Steindir söðlar voru málaðir en gylltir söðlar voru látúnsbúnir. Þeir voru einnig kallaðir látúnsöðlar eða hellusöðlar á seinni tímum. Smeltir söðlar voru greyptir glerjuðu málmskrauti eða skreyttir eirskjöldum. Söðlar sem til aðgreiningar voru kenndir við upprunaland eða svæði, eins og skoskur söðull og þýskur, kunna að hafa verið frábrugðnir hinum í laginu.
Konur riðu í sveifarsöðli , sem á var breið baksveif milli hárra bríka og fótafjöl fyrir báða fætur. Sveifarsöðullinn var einskonar stóll sem stilltur var út á hlið þannig að konan sneri þversum og hafði litla stjórn á hestinum. Guðbrandur biskup Þorláksson gaf konu sinni Halldóru Árnadóttur söðul í morgungjöf árið 1572 og var hann sagður hinn fyrsti sinnar tegundar hérlendis. Líklega hefur hann verið með nýju lagi því söðlar kvenna sem karla, breyttust með tíma og tísku. Glæsilegasta afbrigði sveifarsöðlanna er hinn svokallaði hellusöðull sem var allur klæddur eða hellulagður drifnu látúnsverki. Sveifarsöðlar voru algengir fram yfir miðja 19. öld. Með þeim hvarf merk, forn skreytilist.
![]() |
![]() |
Bryggjuhnakkur frá 18. öld. |
Reiði af 18. aldar söðli. |
Á 17. öld viku standsöðlar karla fyrir þægilegri útgáfu, hinum svokallaða bryggjusöðli eða bryggjuhnakk . Bríkurnar á honum voru miklu lægri og fljótlega var farið að tala um hnakka, hugsanlega af því þeir líktust kollóttum stólum er svo voru nefndir.
Reiði var festur í söðul- og hnakkvirkið og volki spenntur undir tagl hestsins til að hindra framrás áreiðisins. Óvíst er hvenær menn fóru fyrst að nota reiða til að hamla því að reiðverið færðist of langt fram þegar farið var niður brattlendi. Á miðöldum voru reiðar á viðhafnarsöðlum áberandi og ýmislega skreyttir með hringjum, reiðakúlum, náraslettum og nárareimum, bólum, stykkjum og andsviftum. Á miðjum reiðanum var yfirleitt reiðaskjöldur eða -kúla úr látúni eða kopar líkt og diskur á hvolfi með fínu skrautverki. Bestu söðulreiðar voru rándýrir og kostuðu allt að kýrverði. Þá var í tísku að hafa gjörð eða lendaról aftur fyrir læri hestsins. Hún var fest í söðulfjölina og haldið uppi með reimum út frá reiðanum. Skrautlegar brjóstgjarðir eða bógleður voru einnig notuð við viðhafnarsöðla að fornu.
Með iðnlærðum söðlasmiðum um miðja 19. öld komu nýir hnakkar og kvensöðlar til sögunnar. Þeir voru afsprengi evrópskrar tísku og vélvæddra smíða. Þá var í þess orðs fyllstu merkingu söðlað um. Söðulsveif kvensöðlanna var mjókkuð, klædd leðri og sett mun neðar en á sveifarsöðlinum og farið var að tala um söðulboga. Bríkur hurfu. Í staðinn kom skaut að aftan. Söðulboginn kom skáhallt upp úr því og var festur á söðulnef að framan. Dýnan var stoppuð með togi eða hrossasnoði, sem er búkhár af rökuðum hrosshúðum en einnig var norðanlands notað vetrarhár af hrossum sem rifið var af laust á vorin er þau voru að fara úr hárum. Dýnan var svo fest undir söðul og á hnakkana. Tími söðulþófa var liðinn. Undir lok 19. aldar varð hinn svokallaði enski klakksöðull allsráðandi. Hann hafði klakk við söðulnef til að hvíla annan fótinn á. Konan snerist í sætinu og gat nú beitt sér við að stýra reiðskjótanum. Þennan söðul notuðu konur fram yfir 1930, en margar slepptu honum og fóru að riðu í hnakk fyrir aldamótin 1900. Klakklausir söðlar voru einnig til með fótafjöl fyrir báða fætur. Hnakkarnir breyttust einnig. Þeir urðu alskinnaðir með fasta undirdýnu í stað lausu þófanna en fram og afturbríkur hurfu. Í þeirra stað kom hnakknef og skaut eins og enn er.
![]() |
![]() |
Dæmigerður búnaður reiðhests á fyrri hluta 20. aldar beisli |
Eldgamalt ístað. |
Þótt ístöð væru þekkt þegar landið byggðist hafa þau ekki fundist í kumlum heiðinna landnámsmanna. Elstu ístöð á Norðurlöndum eru frá 8. öld, en ístöð voru þekkt í Asíu á 6. öld. Þau tengdust hervæðingu hestanna. Þungvopnaðir riddarar voru sneggri á bak og gátu beitt sér betur í bardögum eftir að ístaðið var fundið upp. Söguleg áhrif ístaðanna eru veruleg. Stíll þeirra hefur þróast eins og annar reiðbúnaður. Þau hafa verið úr ýmsu efni og nefnd eftir útliti og gerð Öryggis- þæginda- og skrautbúnaðurgerð.
Margskonar fylgihlutir vor notaðir við reiðverin, bæði til öryggis og skrauts. Frá síðmiðöldum og fram undir 1900 var algengt að karlar og konur legðu undirdekk milli hests og reiðtygja, til skrauts og til að hlífa reiðverum og reiðfatnaði fyrir hrossamóðu. Undirdekk voru misstór og afbrigði þeirra heita ýmsum nöfnum eftir stærð. Lendaklæði og síðuklæði eða skafrak skreytt leggingum og kögri náðu niður á nára og jafnvel aftur fyrir hestinn. Á þeim gætti áhrifa evrópskrar hirðtísku og riddaramennsku að einhverju leyti og sennilega má rekja ýmis stílbrigði skrauts og fylgihluta reiðtygja fyrr á öldum til Asíu. Útsaumuð söðulsessa var lögð á setuna til að mýkja sætið og yfir kvensöðulinn var breitt listilega unnið söðuláklæði til að verja söðulinn og konuna fyrir kulda og ryki. Til að verja bryggjusöðla karlanna fyrir óhreinindum var breitt á þá yfirdekk úr vaðmáli, svipað að gerð og undirdekkin.
![]() |
![]() |
![]() |
Viðhafnarbúnaður frá því um 1450, glæstur standsöðull og -beisli. Borðalagðar náraslett-ur, brjóstreim og taumar úr sama efni, við gyllt stangabeisli. Ítölsk veggmynd frá 16. öld. |
Glitofið söðuláklæði, eins og konur notuðu á ferðalögum. Þær settust á klæðið og sveipuðu því utan um sig. |
Kona þessi ríður í standsöðli við hringamél og hefur sveipað um sig söðuláklæði. Á fótum eru sporar og hnútasvipa í hendi. |
Hnakktöskur voru festar með ólum á hnakkpúða aftan við 19. aldar hnakkinn svo sem enn er gert á ferðalögum. Púðarnir eru stoppaðir eins og hnakkdýnan. Söðultöskur voru bundnar við söðulboga eða söðulsveif. Töskur voru yfirleitt úr leðri, boldangi eða selskinni. Algengar sívalar töskur með tréloki á báðum endum voru kallaðar skinnsálir. Pokar úr boldangi voru oft notaðir. Á þeim var op á miðri hlið, sett í báða enda og girt um þá miðja með leðuról.
Svipa og keyri þóttu fram á seinni hluta 20. aldar eins sjálfsagðar í höndina og stangamél á reiðhestinn, en þá hurfu þær af vettvangi. Svipusköft voru úr hörðum viði, eik, birki, brúnspón, íbenviði eða spanskreyr og oft fagurlega skreytt, með renndum látúns- eða silfurhólkum á endum og vafninga um miðju. Svipur voru víða kallaðar pískar, einkum spanskreyrsvipurnar. Svipuólar voru úr leðri eða ósútaðri ól, sem var venjulega tvöföld lengd skaftsins. Kvensvipur voru alveg eins og karlmanna, nema nettari.
Sporar voru notaðir frá fornu fari og hafa nokkrir fundist í kumlum heiðinna manna hérlendis. Menn vita ekki hve algengir þeir voru, en þeir tilheyra fremur viðhafnaráreiði en daglegum reiðtygjum og munu hafa lagst af um 1920. Þeir voru yfirleitt úr járni eða öðrum málmum og skrautlegir.
Klyfberar og annar reiðskapur
Klyfberi var mikilvægasta flutningstæki Íslendinga fram á 20. öld er kerrur, vagnar, bílar og dráttarvélar tóku við af klyfjahestinum. Klyfberi er afar einfalt tæki til að hengja á varning til flutnings. Á fjalir sem liggja sitt hvor megin hryggjar á hestinum er trébogi, sem liggur yfir hrygg hans. Á boganum eru tveir til þrír klakkar, hengi, úr tré eða járni. Undir klyfberann á bak hestsins var lagður reiðingur, sem er dýna úr torfi. Hægt er að skera reiðing í mýrum þar sem grasrætur eru þéttar og grófar og mynda samfléttaða seiga rótarflækju.
![]() |
Klyfberi á reiðingi |
![]() |
Klyfberi með hleypiklakki |
![]() |
Klyfjar á hesti |
Þegar reiðingur var lagður á hest var hann lagaður til svo hann sæti vel. Oft var saumað skinn eða strigi utan um hann til hlífðar. Melreiðingar eða meljur eins og þeir voru fremur kallaðir í seinni tíð voru algengir, þar sem melrætur var að fá. Melurinn var tekinn í smáviskum með rótarbuskum og öllu saman þar til hæfileg þykkt fékkst. Þá var allt stangað saman með mjóu snæri eða hrosshársþræði með svokallaðri reiðingsnál og klætt með boldangi eða striga. Klyfberinn var girtur vandlega á hestinn með þremur hrosshárgjörðum, stundum tveimur.
Klyfberasmíði var stunduð víða um land, og þó einkum við sjávarsíðuna þar sem auðvelt var að ná í rekavið. Tveir til þrír klakkar (tréstautar) voru á boganum, tveir sitt hvorum megin til að hengja á varning, og væri miðklakkur var hann til að festa á smápinkla og taum næsta hests í lest. Tvo menn þurfti til að setja upp á og taka ofan af klökkunum. Þurftu þeir að vera jafnfljótir svo flutningurinn snaraðist ekki. Annað ráð var að hafa liðlétting til að „hlaupa undir bagga“ eða „standa undir bagga“ meðan sett var á eða tekið ofan af. Talað var um bagga eða klyf um þungan flutning en trúss um léttari varning.
Um og eftir aldamótin 1900 fóru menn að nota nýja gerð klyfbera með svokölluðu hleypitaki. Þessir klyfberar voru kallaðir niðurhleypur eða klyfberi með hleypiklökkum og höfðu augljós þægindi umfram þá gömlu. Í stað þess að tveir menn lyftu varningi upp af klökkunum, jafnt báðu megin, gátu jafnvel börn hleypt niður af þeim. Þessi útbúnaður var þannig að klakkarnir voru úr járni og hnoðaðir fastir við járnspengur á klyfberaboganum. Lausu endar spanganna féllu sinn ofan á hvorn og var spenna eða lykkja yfir til að festa þá niður. Þegar átti að losa af var nóg að kippa í spotta á lykkjunni eða spönginni, sem þá sleppti takinu. Spengurnar spruttu þá upp og klakkarnir með og varningurinn féll niður án nokkurs annars átaks. Þetta var afar þægilegt við heyflutninga en kaupstaðavarningur fékk einatt varlegri meðferð.
Klyfsöðull er dálítið frábrugðinn klyfbera. Hann hefur tvo boga, sem festir eru á hliðarfjalirnar. Á bogunum eru tveir járnklakkar eða –krókar/hengi, sín hvoru megin. Söðlasmiðir nútímans stoppa dýnur undir klyfsöðul. Áður var hann girtur á reiðing eins og klyfberi. Klyfsöðlar voru notaðir undir klyfjar sem þurftu meira en eina festingu svo sem póstkoffort. Óvíst er hve gamlir þeir eru, en notkun þeirra var talsverð á 19. öld og saumaðar á þá sérstakar klyftöskur úr leðri undir ýmsan varning á ferðalögum. Þær voru mun auðveldari að fást við en trékistur og -koffort.
Flutningsgögn og verkfæri sem algengast var að hengja á klyfberann voru kláfar, laupar, hrip, torfkrókar, kviktré, vögur, barir og drögur. Barir og vögur voru löng tré sem hengd voru á klakka og dregin á hestinum líkt og drögur. Aftan við hestinn var bundin húð, dúkur, eða riðað net og negld á vögutrén. Þar var flutninginn lagður ofan á. Vögur voru notaðar fram á 20. öld til dæmis á bæjum í Hegranesi í Skagafirði og víðar er nýslegið gras og fergin úr flám var vagað á þurrkvöll.
![]() |
Þetta sandvirki er ættað úr Skaftafellssýslu. Það sýnir á sinn frumstæða hátt, trévirki sem hægt væri með smátilbrigðum, að breyta í söðul, hnakk, eða klyfsöðul. Á milli sveggja boga eru tvær hliðarfjalir. Undir sandvirkið er lögð meldýna eða reiðingur og girt á með tveimur til þremur gjörðum. Á framboganum (vinstra megin) er einskonar brík. Stundum var stengt skinn á sandvirkið og það notað til reiðar og líksit þá helst lýsingum af svokölluðum trogsöðlum, sem óvíst er hvernig litu út. |
Léna er þekkt sem einskonar trévirki og var lagt á reiðing, eins og lénur Illuga bónda á Gilsbakka í Hvítársíðu og Melkólfs, þræls Hallgerðar langbrókar. Á 18. öld er talað um lénu sem léttan og traustan trésöðul sem ekki er klæddur skinni og bændur búi til sjálfir og noti til reiðar. Nafnið er alls staðar fyrnt nema í Skaftafellssýslum og þar voru lénur alltaf lagðar á melreiðing (melju). Sænskur almúgi notaði samskonar virki til reiðar fram á 18. öld og íslenskar lénur voru sagðar af sömu gerð og norsku klyfsöðlarnir og jafnvel málaðar eins á 19. öld. Þær virðast því hafa verið notaðar bæði til reiðar og fyrir klyfjar. Að því leyti eru lénur skyldar sand- eða fjöruvirkjum. Það voru einföld trévirki sem Rangæingar og Skaftfellingar notuðu í fjöruferðum, annars vegar til að flytja á fisk og hins vegar til reiðar. Sandvirkin eru eins konar tréhnakkar úr tveimur bogum og hliðarfjölum (síðufjölum) á milli. Þegar þau voru notuð til reiðar var skinn- eða boldangsklædd seta milli síðufjala. Við þau voru notuð járn- eða hornístöð.
Sennilega hafa trogsöðlar, sem getið er um í gömlum heimildum verið náskyldir skaftfellsku sandvirkjunum, ef ekki samskonar reiðver. Nákvæm lýsing er ekki til en hafi þeir fremur verið ætlaðir til flutnings en reiðar er ekki furða að mönnum hafi þótt Snorri goði lítt til fegurðar búinn forðum, er hann reið í fornum trogsöðli við hlið Þorleifs kimba, sem sat í steindum söðli glæsilegum. Árið 1575 var sagt að Möðrudalskirkja ætti tólf trogsöðla högg í Skaftafellsskógi, sem þýðir að kirkjan mátti nýta við úr skóginum til að búa til og halda við tólf trogsöðlum. Þótt bréfið sé talið falsað er ljóst að heitið var þá enn þekkt og notað. Er kom fram á 19. öld var sagt að trogsöðull væri fornt nafn á fábreyttum trésöðlum bæði á Íslandi og í Noregi.
Lestarferðir voru með ýmsu móti. Fólk var oft með marga hesta í lest er varningur var fluttur úr kaupstað eða milli byggða og landshluta. Þá skipti miklu máli að tryggilega væri búið um hnúta og gengið frá öllum festingum, sérstaklega í bleytu því þá vildu þeir rakna sundur. Þá var heillaráð að bera sand eða mosa í hnútana. Sjá mátti lestir þar sem hestar gengu lausir í halarófu eða voru bundnir á klakk eða bogaband á klyfbera á næsta hesti á undan eða tagl hans. Hestalestir fluttu margskonar varning: heybagga, koffort, poka og töskur. Klyftækur trjáviður var hengdur á klakka á báðar síður, og dróst annar endi klyfjanna við jörð. Það voru kallaðar drögur. Tré og annar flutningur sem ekki var klyftækur var dreginn á ísum.
Er fólk flutti búferlum voru lestirnar tilsýndar eins og haugar „af kistum og kössum, rúmstæðum, borðum, stólum, pottum, eldhússgögnum, tunnum, ofnum og öðrum búshlutum“ sem færðust eftir veginum sagði Georg F. H. Shrader. Það hefur verið sjón að sjá og undir hverjum haug leyndist hestur og innanum og samanvið pinklana sátu börn á baki hestanna eða voru hvert í sínu kofforti sitt hvorum megin á hesti. Aðrir í fjölskyldunni riðu á undan og eftir hersingunni. Flutningur sjúkra var vandaverk. Þeir rúmliggjandi voru fluttir á kviktrjám. Grannar tréspírur voru lagðar milli tveggja hesta og bundnar á klakkana á klyfberanum, sem girtur var á reiðing. Ofan á voru lögð borð eða rúm fyrir sjúklinginn að liggja á. Trén kvikuðu til við hreyfingu hestanna sem teymdir voru ofur varlega og gat ferðalagið tekið langan tíma. Þannig voru líkkistur einnig fluttar til kirkju eða þær voru reiddar um þverbak á einum hesti, en þá voru þær lagðar á svokallaðar líkfjalir sem girtar voru undir kistuna á reiðing svo hún lægi vel.
Aktygi
Sleða- og vagndráttur á hestum var stundaður löngu fyrir landnám Íslands. Aktygi eða akfæri voru notuð fyrir drátt eins og plóga, ísasleða, kerrur og vagna. Akuryrkja var stunduð hérlendis a.m.k. á 10. og 11. öld og þá hafa plógar verið festir á einhverskonar akfæri og dregnir af hestum eða nautgripum. Hugsanlega eru hnöttóttar koparbjöllur sem taldar eru frá 12. og 13. öld og varðveittar eru í Þjóðminjasafni Íslands elstu merki um aktygi eða beisli við sleðadrátt.
Sleðar voru alltaf þekktir og orðatiltæki sem vísa til sleðanotkunar koma fyrir. Um atvik frá 1507 er talað um „að hleypa sleðanum fram fyrir eykinn“ en það þýðir að taka djúpt í árinni eða ganga langt og vísar til þess að fara svo greitt eða ógætilega á ísasleða að hann fari fram úr dráttardýrinu (eyknum). Þetta var vandamál áður en kjálkar tengdu hest og sleða og stilltu bilið milli þeirra, því sleðinn var áður dreginn á taugum, hrosshársreipum. Er dregið var á reipum varð að hamla gegn of miklu skriði einkum þegar farið var niður brekkur. Þá voru notaðir svokallaðir dragbítar, litlir járnkrókar eða járnnabbar sem festir voru neðan á sleðameiðana og stigið var þétt á ef sleðinn skreið of hratt. Í þeirra stað notuðu sumir grannar keðjur, svokallaðar hömlur, sem festar voru undir annað eða bæði drögin (meiðana) eftir þörfum. Keðjurnar verkuðu þá sem dragbítar. Í stað dragbíta var hægt að nota kantað járn sem var bundið um dragið (meiðann) á milli rima þannig að það reif sig ofan í svellið ef því var þrýst niður. Ef enginn dragbítur var á sleðanum var hægt að hamla með haldreipi eða kaðli. Þá var gengið með sleðanum og haft á honum band og hamlað á móti skriðinu með átaki. Það gekk vel í snjó, en á ísum var slíkt gagnslaust sökum viðspyrnuleysis.
![]() |
![]() |
Kragaaktygi. 1 járnhringir fyrir tauma, 2 kragi, brjóstklafi, 3 járn til að festa á, hald, 4 reimar, 5 klampar, 6 taumar, 7 kviðreim, 8 leðurreim. |
Aktygjadráttur var mun þægilegri fyrir hestinn en þegar dregið var á öðrum virkjum, eins og klyfbera. |
Heimild er um sjö hesta akfæri í Skálholti árið 1548 en þeirra er annars sjaldan getið. Í stað akfæra var notaður klyfberi. Þá var reipi brugðið utan um og framfyrir hliðarfjalir og klyfberaboga og stroffum smeygt á klakkana. Sleða var einnig hægt að draga á hnakk eða sandvirki. Hnakkurinn var þá girtur framarlega og reipi smeygt utanum og framfyrir hann. Notuð var brjóstgjörð til að stilla átakið á bringu hestsins. Sleðameiðar úr hvalbeini voru nokkuð algengir og sterkari en úr tré. Óvíst er hvenær menn fóru almennt að festa járnvar neðan á sleðameiða til betri endingar og þæginda, en notkun sleða jókst mjög á 19. öld. Þá voru járnvarðir sleðar til á flestum bæjum og með tilkomu kjálka á seinni hluta aldarinnar varð þægilegra að eiga við þá og ekki lengur hætta á að þeir færu fram úr dráttardýrinu.
Vegleysur og vondar aðstæður fyrir vagna og kerrur ollu því sennilega að þau voru minna notuð hér en í nágrannalöndunum. Notkun þeirra var þó vel þekkt á 13. öld ef marka má Sturlungu og löngu seinna, árið 1754, fluttist Jón eldklerkur Steingrímsson með börn og bú á vagni milli bæja í Skagafirði. Undir lok 19. aldar var farið að nota kerrur og vagna í stórum stíl. Aktygi til dráttar voru þá flutt til landsins, en fljótlega var farið að framleiða íslensk aktygi sem hentuðu íslenska hestinum betur til kerru- og vagndráttar.
Með aukinni kerrunotkun hófust fyrstu raunverulegu vegabæturnar. Sums staðar gátu bændur unnið fyrir útsvarinu og öðrum opinberum skuldum með því að taka þátt í að byggja upp akfæra vegi. Um aldamótin 1900 voru vegir fyrir póstvagna og aðrar hestakerrur ruddir á fáeinum leiðum, en verulegur skriður komst ekki á vegagerð í öllum landshlutum fyrr en bílar komu til landsins á fyrri hluta 20. aldar. Í fyrstu þræddu vegirnir gamlar hlykkjóttar reiðgötur sem kræktu fyrir hóla, börð og fúafen, en fljótlega fóru menn að leggja vegi eftir nýjum og beinni leiðum.
Sterkir skapstilltir hestar voru valdir til að draga búvélar er vélvæðing landbúnaðarins gekk yfir og settar voru á fót tamningastöðvar fyrir dráttarhesta víða um land. Nokkrar voru enn starfræktar um miðja 20. öld á tímamótum er vélar tóku við dráttar- og burðarhlutverkum hestanna við bústörfin. Kerruklárarnir sem allstaðar voru við flutninga um miðja 20. öld og fetuðu ófáar ferðir á heftir kúskum sínum með hverja kerruna af annarri fulla af möl og öðru efni í bílvegi viku fyrir hraðskreiðum vélknúnum tækjum nútímans um leið og vegirnir urðu bílfærir. Hestalestir hurfu á braut sögunnar jafnóðum og bílfært varð yfir fjöll og inn til dala.
Heimildir
Arbete och redskap . Materiell folkkultur paa svensk landsbygd före industrialismen. Stocholm 1971 Björn Þorsteinssosn.Enskar heimildir um sögu Íslendinga á 15. og 16. öld. Rv. 1969.
Bréfabók Guðbrands byskups Þorlákssonar. Rv. 1919-1942.
Broddi Jóhannesson. Faxi. Rv. 1947.
Búa-Lög . Hrappsey 1775.
Búalög um verðlag og allskonar venjur í viðskiptum og búskap á Íslandi . 1. hepti. Rv. 1915.
Sturlunga saga I og II. Rv. 1946.
Daniel Bruun. Fortidsminder og nutidshjem paa Island. Kh. 1928.
Daniel Bruun. Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár. Rv. 1987.
Daniel Bruun. Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár. Rv. 1987.
Einar Laxness. Íslands saga a-ö. Rv. 1955.
Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar. Þýtt hefur Steindór Steindórsson. Rv. 1974.
Ferðabók Sveins Pálssonar. Dagbækur og ritgerðir 1791-1797. Rv. 1945.
Finnur Jónsson á Kjörseyri. Þjóðhættir og ævisögur frá 19. öld. Akureyri 1945, 277-381.
Georg F.H. Shrader. Hestar og reiðmenn á Íslandi. Jónas Jónasson hefur íslenzkað. Kópavogi 1986, 41.
Guðmundur Finnbogason. „Söðlasmíði“. Iðnsaga Íslands II. Rv. 1943, 7-20.
Íslenzkt fornbréfasafn. VI - XVI. Rv. 1900 - 1949.
Íslenzk fornrit III. Borgfirðingasögur . Rv. 1938.
Íslenzk fornrit IV. Eyrbyggja saga. Grænlendinga sögur . Rv. 1935.
Íslenzk fornrit XII. Brennu-Njáls saga. Rv.1954.
Jón Helgason. Íslenzkt mannlíf I. Rv. 1958.
Séra Jón Steingrímsson. Ævisagan og önnur rit. Rv. 1973.
Jónas Jónasson frá Hrafnagili. Íslenzkir þjóðhættir. 3. útg. Rv. 1961.
Kristján Eldjárn. „Fornþjóð og minjar“. Saga Íslands I. Rv. 1974, 101-152.
Kristján Eldjárn. Kuml og haugfé úr heiðnum sið á Íslandi. 2. útg. Ritstj. Adolf Friðriksson. Rv. 2000.
Lena Thålin-Bergman. „Teknik och handverk under vendeltid“. Vendeltid. Borås 1980, 193-221.
Matthías Þórðarson. „Málmsmíði fyrr á tímum“. Iðnsaga Íslands II. Rv. 1943, 254 – 335.
Oddur Einarsson. Íslandslýsing. Qualiscunque descriptio Islandiae. Rv. 1971, 101.
Ólafur Sigurðsson. „Fyrir 40 árum“. Tímarit Hins íslenzka bókmenntafjelags XV. Kh. 1884, 198-246.
R. Söegaard. „Ridesadlens utvikling gjennem ca. 1800 aar“. Morgenbladet n. 168, 10/6 1921, 6. Oslo.
Rit þess íslendska Lærdóms-Lista Félags I-XV. Kh. 1781-1798.
Sigrid H. H. Kaland og Irmelin Martens. „Farming and daily life“. Vikings. The Northers Sturlunga saga I og II. Rv. 1946.
Söguþættir landpóstanna I og II . Rv. 1942.
Atlantic Saga . Washington and London 2000, 42-54.
Þorsteinn Konráðsson. „Klyfjareiðskapur“. Iðnsaga Íslands II. Rv. 1943, 21-29.
Þórður Tómasson í Skógum. Reiðtygi á Íslandi í aldaraðir. Rv. 2002.
Ögmundur Helgason. „Söðlasmíðar“. Hugvit þarf við hagleikssmíðar, 13-70. (Safn til Iðnsögu Íslendinga VI. Ritstj. Jón Böðvarsson. Rv. 1992).