Theodór Arnbjörnsson, hrossaræktarráðunautur 1920-1939

Ævi og störf
Arna Björg Bjarnadóttir tók saman

Theodór tók við starfi hrossaræktarráðunautar þegar hrossarækt í landinu var á byrjunarstigi. Hann var mikill brautryðjandi og markaði mikilvæga stefnu á sviði hrossaræktar og meðferðar hrossa. Starfið var þá sem nú vandasamt og viðkvæmt í senn. Theodór þurfti að takast á við mörg erfið verkefni en naut almenns trausts. 
            
Theodór er upphafsmaður að færslu ættbókar íslenska hestsins. Ættbók BÍ, sem Theódór lagði grunn að er undirstaða þess mikla gagnagrunns sem ræktun íslenska hestsins byggist nú á. 

Í starfstíð Theodórs var deilt um hvort rækta ætti tvö hestakyn í landinu, vinnuhestinn og reiðhestinn. Theodór lagðist alfarið gegn því og var horfið frá þeirri hugmynd á hans tíma og áhersla lögð á að rækta eitt kyn með reiðhestshæfileika en sem gæti jafnframt nýst til léttari vinnu. 

Theodór var mikill talsmaður kynbótastarfs og var afar glöggur á hross. Theodór barðist fyrir því að koma á afkvæmasýningum. Þær reyndust mikilvægt skref fram á við í ræktunarstarfinu. Hann lagði einnig áherslu á að greina úrvalsættir og stofna innan íslenska hrossakynsins. Það reyndist happadrjúgt en gekk síðar út í öfgar. Sú tilhneiging að einblína alfarið á einstaka ættstofna er nú að mestu um garð gengin. 

Theodór var ákafur talsmaður fóðurbirgðafélaga, eftirlits með skepnuhaldi og búfjártrygginga. Með föstum rökum en aðgætni reyndi hann að fá menn í lið með sér til að bæta aðbúnað búfjár. Hann benti mönnum á að sveitabúskapurinn yrði að skila arði og til þess væri nauðsynlegt að hirða og fóðra búféð vel. Að sama skapi næðu kynbætur aðeins takmarki sínu þegar meðferð hamlaði ekki þroska. 

Theodór tók þátt í tilraunum til eflingar hrossamarkaða. Hann skrifaði kynningarrit og greinar sem birtust í Danmörku og Þýskalandi. Árið 1934 ferðaðist hann með Þjóðverja um landið, sem keyptu 200 hross og fluttu til Þýskalands. 
  
Í skrifum Theodórs kemur vel fram hversu nákvæmur og vandaður fræði- og vísindamaður hann var. Stórvirkið Hestarkom út árið 1931. Bókin þótti tímamótaverk og hlaut einróma lof í öllum ritdómum og umsögnum. Þrátt fyrir þær gríðarlegu framfarir sem orðið hafa í meðferð hrossa, hrossrækt og tamningum á umliðnum tíma heldur bókin enn í fjölmörgum atriðum gildi sínu. Leiðbeiningar um tamningu og meðferð eru í anda þess sem nú er efst á baugi og kallast „natural horsemanship“. Bókin Járningar kom út árið 1938. Bókin leysti úr brýnni þörf, en þá var hið mesta ólag á járningum og hófhirðu hrossa hér á landi. Bókin Sagnaþættir úr Húnaþingi kom út að Theodóri látnum árið 1941. Bókin þótti listilega skrifuð og þar er mikinn fróðleik að finna. 
Þrátt fyrir stutta starfsævi skrifaði Theodór einnig gríðarlegan fjölda greina og safnaði miklum þjóðlegum fróðleik.

Ítarefni: Kristinn Hugason: „Ráðunauturinn, rithöfundurinn, fræðimaðurinn." Ræða flutt á Theodórsþingi að Hólum í Hjaltadal 20 apríl 2007.

 

Svæði

SÖGUSETUR ÍSLENSKA HESTSINS SES
Hólum í Hjaltadal  |  551 Sauðárkrókur  |  KT 411014-1420