Málþing - forn hestabein

Sögusetur íslenska hestsins stóð fyrir málstofu um sögu hestsins út frá fornleifum á Hólum í Hjaltadal 21. ágúst 2007. Hestabein sem fundist hafa við fornleifauppgröft eru ómetanlegar heimildir um sögu hestsins; uppruna hans, heilsufar og notkun í gegnum aldirnar. Á málstofunni kynnti Sigríður Björnsdóttir dýralæknir, Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur og Ylva Telldahl fornleifafræðingur frá Svíþjóð nýleg rannsóknarverkefni á þessu sviði. 
  
Í upphafi gerði Ragnheiður Traustadóttir, fornleifafræðingur og stjórnandi Hólarannsóknarinnar, grein fyrir mikilvægi fornra dýrabeina fyrir túlkun menningarsögunnar. Dýrabein af ýmsu tagi eru á meðal þess merkasta sem  fundist hefur við fornleifauppgröftinn á Hólum, í Kolkuósi og í Keldudal auk þess að vera það fyrirferðamesta. Nú þegar er búið að grafa upp og greina um eitt tonn af dýrabeinum í þessum rannsóknum. Út frá beinunum má ráða mikið um mataræði fólks á mismunandi tímum, notkun dýra í landbúnaði, veðurfar og það sem kannski kemur mest á óvart, gæludýrahald, sem aftur gefur vísbendingar um efnahag fólks. 
Þrátt fyrir ritaðar heimildir um mikið hestahald á Hólum á miðöldum, þar sem í fyrsta sinn er getið um að menn hafi þegið laun fyrir að temja og þjálfa hross og hestasveinar tilheyrðu starfsstétt, hafa nær engin hestabein frá þeim tíma fundist við uppgröftinn á Hólum.   
  
Ylva Telldahl fornleifafræðingur og sérfæðingur í dýrabeinum við Háskólann í Stokkhólmi kynnti rannsóknir sínar á beinum hesta og nautgripa á járnöld (200 e. Kr. – 1000 e. Kr) auk beinafunda frá miðöldum. Hún hefur lagt sig sérstaklega eftir að meta hvernig þessi dýr voru notuð í landbúnaði. Í sumum tilfellum er hægt að greina hvort hross hafi verið notuð til reiðar eða dráttar og meta heilsufar þeirra. Athygli vakti að spatt reyndist vera sá fótasjúkdómur sem oftast sáust merki um á sænskum hestabeinum frá járnöld. Miðað við lengd leggjanna má ætla að hestarnir hafi verið af svipaðri stærð og íslenski hesturinn. 
  
Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir horssasjúkdóma hjá Landbúnaðarstofnun, greindi í lokin frá rannsóknum á hestabeinum sem fundist hafa í kumlum og varðveitt eru á Þjóðminjasafni Íslands. Um er að ræða ræða bein úr hrossum sem lifðu á árunum 874 – 1000, þ.e. landnámshestunum og fyrstu afkomendum þeirra. 
Nú hafa bein úr 31 kumli sem höfðu að geyma a.m.k. 35 hesta verið rannsökuð. Reynt var að meta aldur hestanna út frá tönnum og beinum (vaxtarlínum). Með nokkurri nákvæmni var hægt að greina aldur 10 hesta og aldur 10 annara var metinn gróflega. Þeir reyndust vera frá 3ja vetra og uppúr, flestir á besta aldri eða 5 – 15 vetra. 
Framleggir 14 hesta eru varðvaeittir og afturleggir 16 hesta. Framleggirnir reyndust að meðaltali 27,2 sm og afturleggirnir 23,2 sm. Út frá þessum mælingum má ætla að hestarnir hafi verið á bilinu 145 – 149 sm á herðakamb sem er öllu hærra en áður hefur verið talið og hærra en meðaltal hrossastofnsins nú á dögum. Breytileiki í stærð hestanna var ekki mikill. 
Hjá 18 hestum voru bein hækilsins það vel varðveitt að hægt var að meta hvort þeir hafi haft spatt. Svo reyndist vera í 6 tilfellum. Hjá fjórum hestum mátti sjá að griffilbein höfðu kalkað föst við framleggi með tilheyrandi beinhnútum. Alvarlegar breytingar fundust einnig í hryggjarliðum fjögurra hesta. 
Það er ljóst að spatt hefur verið algengur fótasjúkdómur í landnámshestinum líkt og nú á dögum og það sama má segja um beinhnúta milli griffilbeins og leggjar framfóta. Það er athyglisvert í ljósi þess mikla munar sem ætla má að sé á notkun hrossanna og ýmissa annara ytri aðstæðna. T.d. má geta þess að ekki hafa fundist nein merki þess að hestar hafi verið járnaðir á landnámsöld. Þessi gögn styrkja þannig aðrar rannsóknir sem sýnt hafa fram á að spatt sé fyrst og fremst arfgengur sjúkdómur, líklega tengdur byggingarlagi hækilsins. 
Þær alvarlegu breytingar sem sáust í hryggjarliðum fjögurra hesta benda til þess að þeir hafi verið notaðir til reiðar þó ekki sé hægt að útiloka að notkun hrossanna til burðar, t.d. með klifberum, hafi getað valdið svo miklum skemmdum á hryggjarliðum. 
Áframhaldandi rannsóknir á þessum dýrmætu fornminjum eru nú þegar komnar í gang við Landbúnaðarháskóla Íslands, þar sem ætlunin er að einangra erfðaefni úr tönnum og beinum landnámshestanna  og bera saman við erfðaefni úr öðrum hrossakynjum að fornu og nýju. 
  
Líflegar umræður áttu sér stað að fyrirlestrum loknum. Ármann Gunnarsson dýralæknir greindi m.a. frá rannsóknum Dr. Günter Nobis sem gerði merkar greiningar á fornum íslenskum hrossabeinum á árunum um 1960. 
Það er ljóst að hin fornu hrossabein á Þjóðminjasafninu eru mikill fjársjóður og eiga enn eftir að segja okkur mikið um uppruna og sögu íslenska hestsins.

Svæði

SÖGUSETUR ÍSLENSKA HESTSINS SES
Hólum í Hjaltadal  |  551 Sauðárkrókur  |  KT 411014-1420