Sumaropnun Söguseturs íslenska hestsins 2019

Sumaropnun Sögusetursins hefst laugardaginn 8. júní nk. Setrið verður opið daglega frá klukkan 10 til 18, alla daga vikunnar nema mánudaga, þá er lokað. Sumaropnuninni lýkur laugardaginn 31. ágúst.

Í ár verður opnuð ný sýning á setrinu sem ber nafnið Prýðileg reiðtygi og byggist á samnefndri sýningu sem var uppi í Þjóðminjasafni Íslands á sl. ári. Sýningin sem sett verður upp á Hólum er eftirmynd þeirrar sýningar með þeim takmörkunum sem sýningahúsnæðið setur gagnvart sýningaaðstöðu og vörslu muna.

Á sýningunni er athyglinni beint að handverkinu og listfengi smiðanna sem bjuggu til búnað fyrir reiðhross velmegandi fólks. Heillandi myndefni sem skreytir söðla, sylgjur, hringjur og söðuláklæði vitnar um hagleik og þekkingu þeirra sem sköpuðu þessa ríkulegu arfleifð. Sömuleiðis varpar reiðbúnaður fyrri alda ljósi á þróun reiðtygja og fyrir hvað þau stóðu, ásamt reiðhestinum sem búinn var þessum gersemum. Í því sambandi má minnast á söðuláklæðin, sem notuð voru til að verja söðlana og reiðkonurnar sjálfar fyrir óhreinindum, eru þau ekki aðeins gullfalleg heldur og séríslensk. Í því sambandi má benda á að eini uppsetti kljásteinavefstaðurinn á Norðurlandi er í Auðunarstofu hinni nýju, á Hólum, en það var einmitt með þess háttar vefstól sem söðuláklæðin voru ofin.

Hér er um mjög athyglisverða sýningu að ræða sem höfðar hvoru tveggja til Íslendinga sem erlendra ferðamanna.


Svæði

SÖGUSETUR ÍSLENSKA HESTSINS SES
Hólum í Hjaltadal  |  551 Sauðárkrókur  |  KT 411014-1420