Saga hrossaræktar – samantekt og fyrstu skrefin. Ný grein á vefnum eftir forstöðumann Sögusetursins

Grein þessi birtist á prenti á bls. 9 í 38. tbl. Feykis þann 6. október sl. Þetta er önnur greinin í greinaflokki um sögu hrossaræktar sem birtast mun á síðum blaðsins næstu mánuðina eða misserin raunar má ætla, svo viðamikið er efnið sem er undir. Í greininni er gefið stutt yfirlit yfir það umfjöllunarefni sem fyrir liggur að ljá aukna dýpt; greint er frá fyrsta skipulega vísi að hrossakynbótastarfi og tæpt á helstu vörðunum sem ætlunin er að fylgja í umfjölluninni framundan og lýsa þá nánar.

Nú eru brátt að verða komin full fjögur ár þar sem reglulega hafa birst í hverjum mánuði greinar eftir forstöðumann SÍH í Feyki, að slepptum hásumarmánuðunum júlí og ágúst, allar greinarnar er að finna hér á heimasíðunni undir slánni; Fræðsla sem er einn af efnisþáttunum efst á síðunni, þegar Fræðsla hefur verið valið er undirflokkurinn; Greinar forstöðumanns í Feyki, valinn og eru þar allar greinarnar aðgengilegar.

Myndin sem greininni fylgir; „Á flengireið yfir á við Heklurætur.“, er tekin af Tempest Anderson (1846–1913) sem var breskur augnlæknir og mætur sem slíkur en gat sér mikið frægðarorð fyrir áhugamál sín utan læknisfræðinnar, einkum þó að ljósmynda gosstöðvar víða um heim. Hann kom hingað til lands sumrin 1890 og 1893 og dvaldi lengi í bæði skiptin. Fylgdarmaður hans var hinn þekkti leiðsögumaður og ferðagarpur Geir Zoäga (1830–1917), síðar útvegsmaður og kaupmaður. Þeir fóru árið 1890 að Skaftáreldahrauni og voru tíu daga austur, eftir að hafa slegið upp búðum þar fóru þeir á frábærlega fótvissum hestum undir leiðsögn staðkunnugs heimamanns að gígaröðinni. Er allt eins líklegt að umrædd mynd sé tekin þegar riðið er yfir einn af 18 álum Skaftár, eins og að hún hafi verið tekin við Heklurætur, en frá reiðinni yfir ála Skaftár segir frá ásamt mörgu öðru héðan af landinu í bókinni Volcanic studies in many lands eftir Anderson sem út kom 1903 og segir af ferðum hans víða um heim 1890 til 1903. Anderson hlaut doktorsgráðu í eldfjallafræði frá Háskólanum í Leeds 1904. (Læknablaðið 12. tbl., 104. árg. 2018).   

Lesa má greinina í heild sinni hér. 

 


Svæði

SÖGUSETUR ÍSLENSKA HESTSINS SES
Hólum í Hjaltadal  |  551 Sauðárkrókur  |  KT 411014-1420