Ný grein á vefnum eftir forstöðumann Sögusetursins - Íþróttakeppnir, sagan rakin

Friðþjófur Þorkelsson. Mynd SÍH, Sig. Sigm.
Friðþjófur Þorkelsson. Mynd SÍH, Sig. Sigm.

Fyrsta Feykisgrein forstöðumanns SÍH á nýju ári; birtist á prenti á bls. 9 í 1. tbl. Feykis 41. árg., 6. janúar 2021. Haldið er áfram með sögu íþróttakeppninnar og athyglinni sérstaklega beint að árinu 1978 en þá var síðasta landsmótið haldið að Skógarhólum í Þingvallasveit en þá voru jafnframt í fyrsta sinn keppnisgreinar íþróttakeppna á dagskrá landsmóts. Um var að ræða töltkeppni og gæðingaskeið, síðarnefnda greinin er vafalítið merkasta framlag Íslendinga hvað sköpun nýrra keppnisgreina varðar í alþjóðlegri þróun keppnisíþrótta á íslenskum hestum. Sérstaklega er minnst Friðþjófs Þorkelssonar (1932-2008) en hann var merkur brautryðjandi hestaíþrótta á landinu og átti manna mestan þátt í mótun keppnisgreinarinnar gæðingaskeið. Friðþjófur var jafnframt mikill hestaljósmyndari og ánafnaði SÍH ljósmyndasafn sitt.

Þetta er fjórða árið sem greinar eftir forstöðumann birtast reglulega í Feyki en allar greinarnar eru aðgengilegar hér á heimasíðu SÍH undir slánni Fræðsla/Greinar forstöðumanns í Feyki.

Á myndinni hér til hliðar má sjá Friðþjóf Þorkelsson stjórna Leirugleði hestamanna í Mosfellsbæ, „látið vaða á súðum og njótið þess að ærslast og vera til“, sjá bls. 176 í Íslenski hesturinn, útg. MM og SÍH 2004, höfundar Gísli B. Björnsson, Hjalti Jón Sveinsson o.fl. Mynd úr safni SÍH, Sig. Sigm.


Svæði

SÖGUSETUR ÍSLENSKA HESTSINS SES
Hólum í Hjaltadal  |  551 Sauðárkrókur  |  KT 411014-1420