21.07.2024
Íslenski hesturinn er talinn að mestu hafa komið með landnámsmönnunum fyrir um 1150 árum síðan. Hann er oftast sagður eiga rætur sínar að rekja til Noregs og alla leið til Mongólíu en þó eru skiptar skoðanir um hvaðan hann kemur, en eðlilegt ber að teljast að hestar fá öðrum svæðum hafi blandast við þá frá Noregi.
Hin fyrstu formlegu lög sem sett voru og bönnuðu innflutning á hrossum erlendis frá voru sett 1882, og þau voru endurgerð 1905 og 1909. Í þeim síðastnefndu var kafli sem kvað á um að yfirvöld gætu gert undanþágu á þessu banni. Ein undanþága var veitt á innflutningi hesta til landsins. Árið 1909 óskaði fyrirtækið P.J. Thorsteinsson og Co. eftir því að fá undanþágu til að flytja inn útlenska hesta til landsins. Þetta félag var stofnað 1907 og var almennt nefnt Milljónafélagið. Stofnfélagar átta og voru Pétur Thorsteinsson og Thor Jensen þeirra stærstir og voru það þeir sem raunverulega ráku fyrirtækið. Einnig komu feðgarnir Eiríkur Briem og Eggert sonur hans að rekstrinum, ásamt dönskum athafnamönnum. Þarna var mikill búskapur stundaður, og sinnti félagið líka fiskveiðum, fiskvinnslu og útflutningi á fiskafurðum. Aðalstöðvar félagsins voru í Viðey. Á eystri hluta eyjunnar myndaðist lítið þorp, Sundbakki, sem oft var kallað Þorpið og skiptist það í Stöðina, eða Viðeyjarstöð, og íbúabyggð. Í Þorpinu risu verksmiðjur og stærstu hafnarmannvirki landsins til þess tíma. Á eyjunni rak félagið stórt mjólkurbú og þar var líka vísir að grænmetisframleiðslu. Í tvígang var sótt eftir að Þorpið fengi kaupstaðarréttindi en því var hafnað. Vegna þess að öll hafnaraðstaða var mun betri í Viðey en í Reykjavík og hve mikil umsvif fyrirtækisins voru stóð Reykvíkingum ógn af uppbyggingunni. Þessi miklu umsvif fyrirtækisins höfðu í för með sér að brjóta þurfti niður land og heyja fyrir dýrin með stórum og miklum vélum sem þá vorum komnar til sögunnar, beita þurfti hestum fyrir þessar vélar. Til þess að það yrði hægt sagðist félagið þurfa stærri og sterkari hesta en þá sem voru til staðar í landinu.
Beiðnin um undanþágu mætti mikilli mótspyrnu Magnúsar Einarssonar dýralæknis. Magnús var fyrsti fastlaunaði dýralæknir landsins og sá eini frá því um aldamót 1900 til 1910 þegar þeim fjölgaði lítíls háttar. Hann stóð alla tíð mjög á móti öllum undanþágum og innflutningi á dýrum. Hann óttaðist mjög að sjúkdómar og annað fár gæti borist til landsins með erlendum dýrum. Þrátt fyrir mótstöðu Magnúsar dýralæknis tókst Milljónafélaginu að fá undanþágu og fékk leyfi til að flytja inn fimm hesta frá Danmörku vorið 1910. Einn hestur kom fljótlega eftir það og virðast hafa verið eini hesturinn sem fyrirtækið fékk fluttan ti Íslands. Fyrirtækinu voru takmörk sett um innflutninginn og máttu hestarnir eingöngu vera í Viðey þar sem þeir voru notaðir við störf fyrir fyrirtækið. Þetta var bleikrauður stóðhestur af norskum rótum runninn, u.þ.b. einn og hálfur metri á hæð og mjög sterkbyggður.
Koma hestsins vakti að vonum mikla athygli meðal Íslendinga og var talinn stærsti hestur sem nokkurn tíma hefði sést á Íslandi. Þeir sem unnu með hestinum voru samt ekki svo upprifnir. Þeim líkaði ekki skaphöfn hans og persónuleiki þar sem hann var þekktur fyrir á bíta. Hesturinn fyljaði þrjár til fjórar íslenskar merar á ári og voru afkvæmin stór, sterk og myndarleg. Þau voru álitin vera æðri ungum íslenskum hestum að öllu leyti.
Margir bændur voru áhugasamir um að fá þessa notadrjúgu kynblendinga til sín en þeim var ekki leyft að kaupa þá. Jafnvel þó Magnúsi Einarssyni hafi ekki tekist að koma í veg fyrir að yfirvöld veittu undanþágu á komu hestsins til landsins sá hann til þess að eftir að hesturinn kom var enginn flutningur á hestum leyfður frá Viðey upp á meginlandið. Hann harðbannaði það. Honum var mjög umhugað um að halda íslenska hestinum hreinum af blöndun við annað hestakyn. Hann gekk jafnvel það langt að í eitt sinn þegar geldingi nokkrum tókst að synda frá Viðey til Reykjavíkur var honum umsvifalaust snúið til baka.
Árið 1914 varð fyrirtækið P.J. Thorsteinsson & Co. gjaldþrota og enduðu flestar eigur þess í höndum dansks banka, þar á meðal allir hestarnir með tölu, stóðhesturinn, íslensku merarnar og afkvæmin. Magnús Einarson fylgdi þeim öllum til skips og gætti þess að öll hrossin færu frá landinu og yrðu sett á markað í Englandi.
Það er því þrautseigju og tortryggni Magnúsar Einarssonar dýralæknis að þakka að íslenski hesturinn rétt slapp undan því að verða kynbættur og að Íslendingar eiga enn þann dag í dag hreinræktaðan íslenskan landnámshest.