Vel heppnaðri sumaropnun Sögusetursins 2019 lokið

Sumaropnun Söguseturs íslenska hestsins árið 2019 hófst 8. júní og lauk 31. ágúst. Gestir voru alls 1009, þar af 130 börn, í fyrra voru gestir alls 1024 og börn 153. Þannig að gestir sem greiddu aðgangseyri voru ögn fleiri í ár en í fyrra og þá var líka nokkur fjölgun frá árinu þar áður. Mjög athyglisvert er hversu víða að gestir setursins koma, eða í ár frá 25 þjóðlöndum auk Íslands, að vísu ekki margir frá þeim öllum. Rétt eins og fyrri ár eru þýskir gestir í sérflokki hvað fjölda varðar en þeir voru 334 eða rétt rúm 33%, Íslendingar voru í öðru sæti með 179 gesti, Hollendingar komu í þriðja sæti, voru 64 og svo Bandaríkjamenn í því fjórða með 61 gest. Því næst Svisslendingar (56 gestir) og Frakkar (47). Þar á eftir komu svo Danir en þeir voru 38. Norður- og Mið-Evrópubúar eru þannig stærsti hópurinn, einkum þó af þýska málsvæðinu. Skandinavar eru svo alltaf drjúgmargir og Íslendingum hefur og fjölgað talsvert frá fyrri árum sem er ánægjulegt.

Fjölgun Íslendinga meðal gesta Sögusetursins má næsta örugglega rekja til opnunar nýrrar sýningar nú í byrjun sumars. Hún heitir Prýðileg reiðtygi frá liðnum öldum, sjá fréttatilkynningu hér neðar á síðunni og kynningargrein hér á síðunni undir slánni Gagnabanki. Sýningin er sett upp í samstarfi við Byggðasafn Skagfirðinga og Þjóðminjasafn Íslands. Styrkir frá Uppbyggingarsjóði Noðurlands vestra og Menningarsjóði KS gerðu setrinu fært að koma sýningunni upp auk vitaskuld þeirrar rekstarforsendu SÍH sem fjárframlög frá Sveitarfélaginu Skagafirði og frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu eru, að ógleymdri þeirri stoð sem Háskólinn á Hólum er setrinu, s.s. í gegnum húsnæðismál þess.

Sögusetrið er nú að hefjast handa við stórt og mikilvægt verkefni og hefur fengið styrk úr Stofnverndarsjóði íslenska hestakynsins til að undirbúa það og koma því af stað. Hér er í raun um að ræða framhald rannsókna sem gerðar voru í sambandi við sýninguna Íslenski hesturinn á fullveldisöld sem sett var upp í fyrra og er nú m.a. aðgengileg hér á heimasíðunni, undir slánni Gagnabanki. Felst verkefnið í samningu bókar um íslenska hestinn; uppruna hans, einkenni og eiginleika, sögu hans með þjóðinni og ræktun stofnsins. Jafnframt sem þróun hestamennsku á íslenskum hestum og skyldum atriðum, s.s. meðhöndlun hestsins, þróun reiðtygja o.fl.þ.h., verður gerð skil. Stefnt er að því að bókin komi út á ensku auk íslensku.

Sýningar Söguseturs íslenska hestsins eru opnar fyrir hópa í vetur samkvæmt pöntunum sem gerðar skulu fyrirfram, áhugasamir hafi samband við forstöðumann, Kristin Hugason í síma 891 9879 eða með að senda póst á netfangið sogusetrid@gmail.com eða khuga@centrum.is

 

Forstöðumaður.


Svæði

SÖGUSETUR ÍSLENSKA HESTSINS SES
Hólum í Hjaltadal  |  551 Sauðárkrókur  |  KT 411014-1420