Nýtt ár

Nýliðið ár var farsælt fyrir Sögusetur íslenska hestsins, þá var opnuð ný sýning – Uppruni kostanna – á efri hæð húsnæðis setursins á Hólum, gefið út kynningarefni um sýninguna og allt annað kynningarefni setursins yfirfarið og endurútgefið. Sögusetrið kom einnig með kröftugum hætti að landsmóti hestamanna á Hólum.

Í lok ársins stóð setrið svo, ásamt með RML o.fl., að ráðstefnunni Íslensk hrossarækt í hundrað ár. Hvoru tveggja sýningunni og ráðstefnunni er gerð skil hér á heimasíðunni. Á árinu 2017 liggur fyrir að yfirfara og endurbæta fastasýninguna á neðri hæðinni, efla rekstur safnbúðarinnar og fjölga gestum en þeim fjölgaði þó um 30% á árinu 2016.

Megin áhersluverkefni ársins 2017 er svo að endurbæta og stórauka rafræna miðlun hjá Sögusetrinu. Fyrsta verkefnið á þeim vettvangi er þegar hafið sem er ensk útgáfa á sýningunni Uppruni kostanna; The Origin of the Traits of the Icelandic Horse. Verður afrakstur þess kynntur hér á heimasíðunni jafnskjótt og hann liggur fyrir.


Svæði

SÖGUSETUR ÍSLENSKA HESTSINS SES
Hólum í Hjaltadal  |  551 Sauðárkrókur  |  KT 411014-1420