Jólakveðja



Á árinu 2017 var fylgt eftir því uppbyggingarstarfi sem Sögusetur íslenska hestsins (SÍH) réðist í á árinu 2016 en þá var opnuð ný sýning – Uppruni kostanna – á efri hæð húsnæðis setursins á Hólum, gefið út kynningarefni um sýninguna og allt annað kynningarefni setursins yfirfarið og endurútgefið. Sögusetrið var einnig með sýningu á mótssvæði landsmóts hestamanna á Hólum. Í lok ársins stóð setrið svo, ásamt með RML o.fl., að ráðstefnunni Íslensk hrossarækt í hundrað ár. Á árinu 2017 var gert átak í að auka rafræna miðlun hjá Sögusetrinu og þannig var ensk útgáfa á sýningunni Uppruni kostanna; The Origin of the Traits of the Icelandic Horsegerð aðgengileg hér á heimasíðunni og fljótt á nýju ári mun þýsk útgáfa af hinu sama birtast hér einnig.

Mikið stendur til hjá SÍH á árinu 2018 en það er m.a. með dagskrárlið á aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands sem heitir Íslenski hesturinn – þjóðarhesturinn – efling og uppgangur við fullveldi. Hér er um sýningu að ræða sem sett verður upp á landsmóti hestamanna í Víðidal í Reykjavík 1. til 8. júlí 2018. Að landsmóti loknu verður sýningin sett upp sem fastasýning í Sveitarfélaginu Skagafirði og verður útfærslan hvað það varðar nánar kynnt er þar að kemur. Annað stórt verkefni sem SÍH er með í vinnslu er endurútgáfa hins merka rits Ásgeirs Jónssonar frá Gottorp; Samskipti manns og hests, við það verkefni er setrið í samstarfi við Bókaútgáfuna Sæmund á Selfossi sem endurútgaf með glæsibrag bókina Forystufé eftir sama höfund á árinu 2016. Samskipti manns og hests er ekki síður gullnáma hvað varðar meðferð íslensks máls en bókin merka um forystuféð og hefur að auki glögga skírskotun til góðrar reiðmennsku og á því ekki minna erindi við lesendur nú í dag en þegar hún kom fyrst út árið 1951.

Á fleira mætti minnast sem er á döfinni hjá SÍH en verður þetta látið nægja og samstarf allt og hlýhugur í garð Söguseturs íslenska hestsins á árinu þakkaður og borin fram einlæg ósk um gleðileg jól með lokaerindi kvæðis Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi; Norræn jól:

Það brennur stjarna björt í austurvegi
og bjarma slær um föðurtún.
Í suðri hækkar sól með hverjum degi,
en seglin blika, strengd við hún.
Vér tignum ennþá lög frá liðnum öldum
Og lútum þeim, sem frelsið ól.
Vor æðsta dýrð á dimmum vetrarkvöldum
er draumurinn – um norræn jól.


Svæði

SÖGUSETUR ÍSLENSKA HESTSINS SES
Hólum í Hjaltadal  |  551 Sauðárkrókur  |  KT 411014-1420