Íslensk hrossarækt í 100 ár

Í ár eru tímamót í íslenskri hrossarækt í ýmsum skilningi. Það eru 110 ár frá því að fyrsta kynbótasýningin var haldin, 100 ár frá fæðingu Sörla 71 frá Svaðastöðum sem er helsti ættfaðir íslenska hestsins í dag, 30 ár frá upptöku BLUP-kerfisins, 25 ára afmæli nútíma skýrsluhalds og í ár er 100 ára afmælisár Gunnars Bjarnasonar fyrrv. hrossaræktarráðunautar, brautryðjanda sýningarhalds og markaðssetningar á íslenska hestinum. Það var því vel við hæfi að halda upp á þessi tímamót.

Fyrirlesarar og ráðstefnustjóri, frá vinstri talið: Þorvaldur Kristjánsson, Þorvaldur Árnason, Kristinn Hugason, Sigríður Björnsdóttir, Anton Páll Níelsson, Sveinn Ragnarsson, Olil Amble og Ágúst Sigurðsson. Ljm.: Óðinn Örn Jóhannsson.

Dagurinn byrjaði með fyrirlestrum. Kristinn Hugason, forstöðumaður Söguseturs íslenska hestsins, var fyrstur á mælendaskrá og fór yfir sögu íslenskrar hrossaræktar og notkunar hestsins í 100 ár í yfirgripsmiklum fyrirlestri, sjá hér. Þá steig Sveinn Ragnarsson, deildarstjóri hestafræðideildar Hólaskóla, á stokk og fór yfir verðmæti rannsókna fyrir hrossarækt og hestamennsku. Kynnti hann nýjustu rannsóknir í hrossarækt og vakti fundarfólk til umhugsunar um þá vegferð sem við viljum halda hvað velferð og ímynd íslenska hestsins varðar, sjá hér. Þá hélt Þorvaldur Árnason, kynbótafræðingur, fyrirlestur og fór yfir þróun stofnsins hvað erfðaframfarir og næstu skref í þekkingaröflun varðar. Spennandi tímar eru í vændum hvað varðar nýtingu á erfðamengisúrvali í hrossarækt en það getur hraðað mjög erfðaframförum, sjá hér. Síðasta fyrirlesturinn fyrir hádegishlé flutti Anton Páll Níelsson, reiðkennari og velti fyrir sér þróun í notkun hestsins og keppnisgreinum. Anton flutti mál sitt án hjálpartækja, þannig að ekki er hægt að birta fyrirlesturinn hér.

Eftir hádegi voru fluttir þrír fyrirlestrar. Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun, fjallaði um velferð hestsins, heilsu, endingu og frjósemi. Mikilvægt er að ná vel utan um þessa verðmætu eiginleika sem eru innifaldir í hinu almenna ræktunarmarkmiði, sjá hér. Þá fjallaði Olil Amble, hrossaræktandi og reiðkennari, um hrossaræktina og markaðinn í afar fróðlegum fyrirlestri, sjá hér. Að lokum fjallaði Þorvaldur Kristjánsson, ábyrgðarmaður hrossaræktar hjá RML, um þróun ræktunarmarkmiðsins. Fyrir dyrum stendur vinna hjá fagráði í hrossarækt að fara yfir ræktunarmarkmiðið í hrossarækt, uppfæra dómskalann sem unnið er með í kynbótadómum og aðferðir við matið, sjá hér.

Að fyrirlestrunum loknum fór fram hópavinna. Hópstjórar í hverjum vinnuhópi héldu utan um vinnuna og kynntu umræðu hvers hóps í lok ráðstefnunnar. Ljóst var að fagráð fékk mikið og gott fóður frá fundarfólki inní sína vinnu við þróun dómskalans og markmiðum dagsins því náð.

Vel var mætt á ráðstefnuna en um 120 manns voru á staðnum þegar mest var. Það var mál manna að dagurinn hefði verið skemmtilegur og gagnlegur og nauðsynlegt að halda málþing sem þetta oftar, fræðast, skiptast á skoðunum og fá fram sjónarmið fólks á hverjum tíma.

ÞK/KH


Svæði

SÖGUSETUR ÍSLENSKA HESTSINS SES
Hólum í Hjaltadal  |  551 Sauðárkrókur  |  KT 411014-1420